Óvenjulegt áhugamál venjulegs fólks

Í bókinni Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu, sem kom út á síðasta ári, lýsa þau Unnur Sveinsdóttir og Högni Páll Harðarson ferð um Mið-Asíu sem þau fóru fyrir tveimur árum, en í ferðinni fóru þau um tuttugu lönd á 147 dögum. Árni Matthíasson skrifar skemmtilegt viðtal við þau í Morgunblaðið og segir þar: 

Þau lýsa sjálfum sér svo að þau séu „venjulegt miðaldra fólk sem hefur komið sér upp óvenjulegu áhugamáli“. Högni er vélstjóri með viðskiptafræðimenntun og starfar hjá Alcoa Fjarðaáli, en Unnur myndlistarmenntaður kennari og kennir í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Í bókinni lýsir Högni því er hann fór í fyrsta sinn í langferð á mótorhjólinu og komst þá á bragðið og þegar þau Unnur kynntust heillaðist hún líka af ferðamátanum. Þau segja að erfiðasta skrefið í langferð sé út úr dyrunum heima hjá þér.

„Það eru margir með drauma um ferðina sína en finna aldrei rétta tímann eða réttu aðstæðurnar, en það má fullyrða að „rétti tíminn“ muni aldrei koma – það er bara að láta vaða og fara af stað, hitt leysist af sjálfu sér.

Hvað varðar kostnað þá má auðveldlega halda honum í lágmarki. Það er leitun að dýrara landi en Íslandi hvað varðar bensín og mat þannig að það má segja að maður sé að spara alls staðar annars staðar. Við ferðumst með tjald og víða má fá mjög ódýra gistingu ef maður gerir ekki miklar kröfur til íburðar. Þar sem túrismi er ekki enn orðinn undirstöðuatvinnugrein kosta hlutir minna sem passar vel því þau lönd eru oft þau áhugaverðustu. Þar sýnir fólkið sitt rétta andlit og náttúran er ennþá óspillt.“

Eins og getið er í upphafi lá leið þeirra um tuttugu lönd og aðspurð hvaða staður hafi verið fegurstur á leiðinni segja þau að löndin séu svo ólík að erfitt sé að gera upp á milli. „Svo tengist maður þeim á misjafnan hátt eftir stemningunni hverju sinni. Auðnin og hásléttan í Mongólíu, fjöllin og hrikaleikinn í Tadjíkistan, litadýrðin í klettunum í Kirgistan, gróskan og náttúran í Kákasuslöndunum, ævafornu borgirnar í Úsbekistan, þetta eru allt staðir sem við værum til í að heimsækja aftur.

Kannski má segja að Rússland hafi komið okkur mest á óvart því við höfðum eiginlega engar væntingar til landsins í upphafi. Litum á það sem hálfgerða afplánun á leiðinni til fyrirheitna landsins – Mongólíu. En fólkið sem við áttum samskipti við í gegnum allt Rússland var svo hjálpsamt, vingjarnlegt og hlýlegt að það var engu líkt.

Almennt hittum við bara gott fólk á leiðum okkar, fólk sem vildi allt fyrir okkur gera. Á mótorhjóli er maður svo opinn fyrir samskiptum, það er svo auðvelt að nálgast mann og spjalla og oft fengum við yfir okkur spurningaflóðið þar sem við vorum stopp á rauðu ljósi inni í einhverjum bænum. Það að við vorum bara tvö saman og þar af ein kona gerði okkur líka tiltölulega meinlaus í augum fólks og það nálgaðist okkur óhrætt og af forvitni.“

Ferðin sem lýst er í bókinni Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu var farin sumarið 2014 og næsta ferð er þegar hafin, ef svo má segja, því síðasta sumar fóru þau á hjólunum frá Noregi til Spánar og komu þeim fyrir í bílskúr hjá vini. Í júní taka þau svo upp þráðinn og hyggjast þá hjóla um Pýreneafjöllin, niður Ítalíu, yfir til Albaníu og svo norður úr gömlu Júgóslavíulöndunum og heim, en alls verður sú ferð sex vikur. „Stærri ferð er svo á teikniborðinu í vonandi náinni framtíð og þá er meiningin að fara út fyrir álfuna, til Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu eða Afríku; það ræðst svolítið af pólitíkinni í heiminum og öðrum ytri aðstæðum.“

Eitt er að sitja á mótorhjóli og annað að skrifa bækur, en þau segja að það hafi verið mikil skemmtun. „Bæði að fá tækifæri til að endurlifa ferðalagið í gegnum frásögnina og myndirnar og líka bara gjörningurinn að skrifa bók.

Við áttum rúmlega 30.000 myndir eftir túrinn, mest af því GoPro-myndir reyndar en þær voru gríðarlega mikilvægar til að setja hluti í samhengi. Við héldum dagbók í ferðinni og vorum dugleg að skrifa fésbókarstatusa sem voru nokkurs konar örsögur úr daglega lífinu. Annars hefði þetta sennilega ekki verið hægt, minnið er svo fljótt að svíkja.“


Sjá einnig