Spurt & svarað um endurvinnsluátak sprittkerta

Hér er ýmsum spurningum svarað um endurvinnsluátak sprittkerta, en almenningi gefst kostur á að skila sprittkertum inn til hátt í 90 endurvinnslu- og móttökustöðva um allt land og einnig í grænu tunnurnar frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu. 

Um hvað snýst átakið?

Stofnað hefur verið til endurvinnsluátaks meðal almennings á álinu í sprittkertum og stendur það yfir í desember og janúar. Að átakinu standa Sorpa, Endurvinnslan, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Fura, Málmsteypan Hella og Plastiðjan Bjarg ásamt Samáli og Samtökum iðnaðarins. Almenningi gefst kostur á að skila álbikurunum í sprittkertunum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar. Einnig má setja álbikarana í endurvinnslutunnur á vegum Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins.

Hverjir standa að átakinu?

Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Hver er tilgangur átaksins?

Tilgangurinn er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi endurvinnslu áls og stuðla að almennri vakningu í flokkun og endurvinnslu alls þess sem til fellur á heimilum hér á landi.

Af hverju er mikilvægt að endurvinna ál?

Ál býr yfir þeim mikilvæga eiginleika að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum. Við endurvinnslu áls sparast 95% af orkunni sem notuð var upphaflega við framleiðslu þess. Það skapar því mikil verðmæti að endurvinna ál og um leið dregur það úr sóun og losun gróðurhúsalofttegunda, en mesta losunin í álframleiðslu verður almennt í heiminum við orkuvinnsluna en ekki framleiðsluna sjálfa.

Skiptir máli að endurvinna ál úr sprittkertum?

Margt smátt gerir eitt stórt. Ál úr hverju sprittkerti vegur fimm grömm. Um 200 sprittkerti nýtast í 100 metra af álpappír eða 70 drykkjardósir úr áli. Um þúsund sprittkerti duga í reiðhjól.

Hefur þetta verið gert áður?

Efnt hefur verið til sprittkertasöfnunar í nágrannalöndunum Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Írlandi með mjög góðum árangri.

Að hverju þarf að huga að áður bikurunum er skilað inn?

Sprittkertabikararnir eru úr áli og einungis platan fyrir kveikinn er úr stáli. Gott er að losa þá stálplötu úr botninum áður en skilað er, en það er í lagi að láta plötuna fylgja bikarnum. Æskilegt er að vaxið úr sprittkertunum sé brennt að fullu eða fjarlægt úr
álbikarnum áður en honum er skilað. Ef vaxinu er skilað til Endurvinnslunnar nýtist það til framleiðslu á útikertum hjá Plastiðjunni Bjargi – Iðjulundi á Akureyri.

Hvers vegna er mikilvægt að losa stálplötuna úr álbikarnum?

Það er mikilvægt að losa stálplötuna (þarf ekki að taka hana frá) vegna þess að stál er skilið frá álinu í endurvinnsluferlinu með stórum segli. Ef stálplatan er ekki laus verður álbikarinn segulmagnaður sem getur haft í för með sér að hann er flokkaður með stálinu og verður ekki endurunninn sem ál. Þá hefur stál hærra bræðslumark en ál í endurvinnslu. Almennt er betra að efni sem fer til endurvinnslu sé í sem hreinustu formi.

Hvar er hægt að skila álbikurunum til endurvinnslu?

Hægt er að skila álbikurunum í endurvinnslu á allar endurvinnslustöðvar Sorpu, allar þjónustustöðvar Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins og allar móttökustöðvar Endurvinnslunnar. Alls eru þetta um 90 endurvinnslu og móttökustöðvar um allt land. Einnig má setja álið í grænu endurvinnslutunnurnar á vegum Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins.

Eru einhver verðlaun fyrir að taka þátt í átakinu?

Efnt verður til leiks á Instagram í samstarfi við Mbl. is, þar sem veitt verða verðlaun fyrir fallegustu sprittkertamyndina.

Hvað verður gert við álið sem safnast í átakinu?

Álið sem safnast fer til framleiðslu hér á landi. Tilkynnt verður nánar um það þegar átakinu lýkur 31. janúar.

Hvenær byrjar átakið og hvenær lýkur því?

Átakið byrjar miðvikudaginn 6. desember og því lýkur 31. janúar 2018.


Sjá einnig