Ótvíræð arðsemi í orkuframleiðslu

Ótvíræð arðsemi í orkuframleiðslu

Eftirfarandi ritstjórnarpistill birtist í Staksteinum Morgunblaðsins 13. júní:

„Orkuverð skiptir Íslendinga miklu máli og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, gerir það að umfjöllunarefni í pistli á mbl.is

Því er iðulega haldið fram að verð á orku til stóriðju sé allt of lágt hér á landi. Pétur vitnar í skrif greiningarfyrirtækisins CRU, sem fylgist með orkuverði í heiminum og orkusamningum hér landi, en þar segir: „Á fyrsta ársfjórðungi 2015, var vegið meðaltal raforkuverðs sem íslensk álver greiða, samkvæmt helstu sérfræðingum CRU International, nánast það sama og meðalverð til frumframleiðslu á áli í heiminum, fyrir utan Kína.“

Pétur bendir einnig á að á síðustu tveimur áratugum hafi orðið gríðarleg verðmætamyndun í íslenskum orkufyrirtækjum vegna þess að orkusamningar hafi verið öllum aðilum hagfelldir. Þetta hafi leitt til þess að Landsvirkjun sé nú margfalt verðmætari en fyrir tæpum áratug og að verðmætin hafi að langstærstum hluta myndast með viðskiptum við álfyrirtækin, sem kaupi 75% af orku Landsvirkjunar.

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur batnað hratt og er sterk og Pétur segir að hún sé „ein verðmætasta eign íslensku þjóðarinnar, sem skila mun innan fárra ára tugum milljarða árlega í arðgreiðslur án þess það skerði fjárfestingargetu fyrirtækisins.“

Sumir hafa horn í síðu orkunýtingar hér á landi og aðrir vilja senda orkuna ónotaða úr landi. Hvort tveggja vekur upp spurningar í ljósi þeirrar þróunar sem lýst er hér að ofan.“


Sjá einnig