Vilji til að breyta umhverfisvöktun

Vilji er hjá fyrirtækjunum Norðurál og Elkem á Grundartanga til að nálgast umhverfisvöktun fyrirtækjanna á annan hátt en nú er gert til að auka traust á þeim mælingum sem er nauðsynlegt að gera, að því er fram kemur í frétt RÚV. Umhverfisstofnun boðar til opins kynningarfundar um niðurstöður eftirlits og umhverfisvöktunar vegna fyrirtækjanna á fimmtudag.

Hafa gert athugasemdir við vöktun

Hvalfjarðarsveit er meðal þeirra sem gert hafa athugasemdir við að umhverfisvöktun og mælingar væru á höndum starfsmanna álversins sjálfs og kynning á niðurstöðum sömuleiðis. Á fimmtudaginn verður gerð sú breyting á að Umhverfisstofnun boðar til opins kynningarfundar þar sem kynntar verða helstu niðurstöður athugasemda umhverfisvaktarinnar og sem og innra eftirlits fyrirtækjanna. Sigríður Kristjánsdóttir hjá Umhverfisstofnun segir breytt fyrirkomulag vera til að auka traustið á þeim mælingum sem eru kynntar á fundinum. Hún segir það gæta misskilnings að fyrirtækin vakti sig sjálf. Fyrirtækið greiði fyrir rannsóknir umhverfisvaktarinnar sem og innra eftirlit. Unnið sé eftir kröfum og viðmiðum Umhverfisstofnunar og í tilfellum umhverfisvaktarinnar þá sjái þriðji aðili um framkvæmd rannsóknanna.  

Fleiri geti komið að ákvarðanatökum

Sú hugmynd hefur komið fram hjá fyrirtækjunum tveimur að fá fleiri aðila að umræðu og ákvarðanatöku um hvað skuli mæla, hvar skuli mæla og hverjum skuli fela framkvæmd mælinga þó það breyti því ekki að fyrirtækin verða áfram ábyrg fyrir mælingunum. 


Sjá einnig