Hvernig geta álver spornað við losun gróðurhúsalofttegunda?

 

Heildarlosun á CO2 frá álframleiðslu mældist 1.370 þúsund tonn árið 2021. Losunin hefur dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990. Þar munar mestu um bætta stýringu í kerrekstri í kerskálum sem skilað hefur betri árangri í að draga úr losun PFC efna sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir.

Losun frá álframleiðslu er hvergi lægri á heimsvísu en á Íslandi samkvæmt greiningarfyrirtækinu CRU. En markmiðið er að fara alla leið. Hér má fræðast um loftslagvegvísi áliðnaðarins, sem var kynntur vorið 2023, en þar setja álver á Íslandi sér í fyrsta skipti sameiginleg markmið í loftslagsmálum. 

Almennt verður mest losun í álframleiðslu vegna orkuvinnslu, en framleiðsla áls krefst mikillar orkunotkunar. Á Íslandi byggist raforkuframleiðsla nær einvörðungu á endurnýjanlegum orkugjöfum eins og fræðast má um á vef Orkustofnunar.

Þar sem endurnýjanleg orka er notuð til álframleiðslu er losunin margfalt minni en þar sem orkan er sótt í jarðefnaeldsneyti á borð við kol eða gas, enda er það orkuvinnslan sem losar mest við álframleiðsluna.

Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum á Íslandi og leggja öll álverin ríka áherslu á að starfsemin sé í sátt við umhverfið, með lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna. 

Árangur í að draga úr losun

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslunnar sjálfrar verður við rafgreiningu súráls, þá losnar súrefnið frá álinu og myndar C02 þegar það kemst í efnasamband við kolefnisrafskaut. Hingað til hefur það verið eina aðferðin til að framleiða ál, en Alcoa og Rio Tinto vinna saman að því gegnum Elysis að þróa kolefnislaus rafskaut í samstarfi við Apple og kanadísk stjórnvöld. Þá hafa álverin skrifað undir viljayfirlýsingu með íslenskum stjórnvöldum um taka þátt í þróunarverkefni um gas í grjót með Orkuveitu Reykjavíkur og að leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040. 

Síðustu ár hafa álver á Íslandi náð góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og eru þau í hópi þeirra álvera sem best standa sig á heimsvísu. Eins og áður segir, hefur losun á hvert framleitt tonn minnkað um 75% frá 1990 eins og fræðast má um í bæklingnum Léttum byrðarnar – vegvísi að minni losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu 2050.

Víðfeðm umhverfisvöktun

Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum á Íslandi. Rannsóknirnar eru meðal annars framkvæmdar af Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matvælastofnun, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri óháðum aðilum auk fyrirtækjanna sjálfra.

Eftirlitsmælingar eru hluti af innra eftirliti rekstraraðila og fara fram í samræmi við samþykkta mæliáætlun í starfsleyfum álvera. Mælingar eru annars vegar samfelldar með sjálfvirkum mælitækjum og hins vegar reglubundin sýnataka þar sem utanaðkomandi aðilar framkvæma mælingar. Niðurstöður mælinga eru sendar Umhverfisstofnun ársfjórðungslega.

Álverum ber einnig samkvæmt starfsleyfi að halda skrá yfir prófun og kvörðun mælibúnaðar og í eftirliti er farið yfir mæliáætlun, niðurstöður mælinga og eftirlit og kvörðun mælitækja. Þá ber þeim að halda skrá yfir viðhald, eftirlit og bilanir í mengunarvarnarbúnaði og tilkynna til Umhverfisstofnunar um bilanir eða óhöpp sem hafa í för með sér losun mengandi efna í samræmi við viðbragðsáætlun. Ef upp koma slík tilvik fer Umhverfisstofnun yfir þau með rekstraraðila og er gengið úr skugga um að gerðar séu ráðstafanir sem miði að því að hindra að sambærilegt atvik endurtaki sig. Um þetta má fræðast á vef Alþingis

Á vef Umhverfisstofnunar má finna upplýsingar um árangur íslenskra álvera í umhverfismálum, ítarlegt grænt bókhald fyrirtækjanna og fleira:

Hér má sjá upplýsingar á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um eftirlit með einstökum álverum.

Margfalt minni losun hér á landi

Meðalútstreymi af CO2-ígildum í heiminum er um 8 tonn á hvert framleitt tonn af áli þegar útstreymi vegna raforkuframleiðslu er talið með, samkvæmt Alþjóðasamtökum áliðnaðar, IAI.

Heildarlosun ræðst að verulegu leyti af losun frá raforkuframleiðslunni. Þannig getur heildarlosun frá álveri sem knúið er raforku frá kolaveri numið allt að 17 tonnum á hvert framleitt tonn af áli. Á Íslandi er þetta hlutfall ekki nema 1,64 tonn.

Losun svonefndra PFC gróðurhúsalofttegunda nam um 100 kg á hvert framleitt tonn á síðasta ári hér á landi sem er 5 sinnum minna en að meðaltali í heiminum. Þá hefur útstreymi flúoríðs frá framleiðslunni minnkað um 92% á hvert framleitt tonn frá 1990.

Losun á Íslandi er um 0,01% af losun á heimsvísu, samkvæmt Huga Ólafssyni skrifstofustjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í pallborðsumræðum á ráðstefnu Landsvirkjunar um loftslagsmál í maí árið 2015.

Hér má hlýða á upplýsandi erindi Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings frá Environice á ársfundi Umhverfisstofnunar árið 2014 um „Eftirlit með mengandi starfsemi“.

Notkun áls dregur úr losun

Í erindi dr. Þrastar Guðmundssonar, stundakennara við HR, á ársfundi Samáls vorið 2015 kom fram að heildarlosun frá íslenskri álframleiðslu væri sexfalt minni en sambærilegra álvera sem reist hefðu verið í Mið-Austurlöndum og knúin væru af gasorku. Þá væri hún tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin væru með kolaorku í Kína.

Þröstur benti á að stór hluti áls sem framleitt væri á Íslandi færi í samgöngutæki í Evrópu. Þar sem aukin notkun áls létti farartæki, þá drægi við það mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Sparnaðurinn væri tvöfalt meiri en sem næmi losuninni við frumframleiðslu álsins hér á landi. Ef tekið væri með í myndina að ál má endurvinna endalaust, þá mætti reikna með að sparnaðurinn í losun væri sextánfaldur á við losunina sem yrði við frumframleiðslu álsins hér á landi.

Ítarleg upplýsingagjöf álvera

Öll álverin leggja ríka áherslu á að starfsemin sé í sátt við umhverfið. Stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa ásamt ábyrgri nýtingu orku og hráefna. Greinargóðar upplýsingar má finna á heimasíðu hvers og eins álvers:

Alcoa Fjarðaál

Norðurál

Rio Tinto á Íslandi (Isal)

Sjá einnig