Pétur Blöndal segir fólk verða stöðugt meðvitaðra um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu.
Pétur Blöndal segir fólk verða stöðugt meðvitaðra um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu.

26 sprittkerti duga í álið í iPhone

Gífurlegt magn af áli kemur árlega til endurvinnslu, að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls, enda felst góður ávinningur í flokkun og skilum á áli að hans sögn og á þeim grunni byggist átakið Endurvinnum álið. Þannig hefst spjall Vilhjálms Andra Kjartanssonar við Pétur í Morgunblaðinu í dag, en tilefnið er að fjalla um endurvinnslu um jól og áramót. 

„Ef við horfum til heimilanna, þá er skilagjald á drykkjardósum úr áli og er skilahlutfallið um 90%. Reikna má með að um 4-5% til viðbótar séu tínd af færibandinu hjá Sorpu og endurvinnslustöðvum. En með endurvinnsluátaki áls í sprittkertum er verið að vekja athygli á þeim straumi áls í smærri hlutum sem liggur um heimilin og raunar fyrirtækin líka. Safnast þegar saman kemur,“ segir Pétur en um er að ræða tilraunaátak og þau fyrirtæki sem standa að átakinu munu setjast yfir árangurinn þegar átakinu lýkur í lok janúar. 

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga og alveg ljóst að Íslendingar eru orðnir mun meðvitaðri en áður um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Álinu úr sprittkertunum má skila á hátt í 90 móttöku- og endurvinnslustöðvar hér á landi, í grænar tunnur Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins og loks í söfnunargáma fyrir dósir hjá Grænum skátum sem eru á 120 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.“

Þá minnir Pétur á að Endurvinnslan safnar kertavaxi sem endurunnið er í útikerti hjá Plastiðjunni Bjargi – Iðjuþjálfun. Eins er rétt að taka fram að ekki má setja ál í grænar
tunnur Reykjavíkurborgar 

Munar um hvert kerti

Spurður að því hvort muni nokkuð um ál úr einu sprittkerti segir Pétur það svo sannarlega skipta máli. „Já, það munar um þau. Ef horft er til sprittkertanotkunar á Norðurlöndunum má áætla að Íslendingar noti á bilinu 2-3 milljónir sprittkerta árlega. Ef við endurvinnum álið úr þeim, þá þarf glettilega lítið magn til að það fái nýtt hlutverk og gangi í endurnýjun lífdaga. Það duga til dæmis 26 sprittkerti í álið í iphone 6
farsíma, um 545 í MacBook Air fartölvu og 700 sprittkerti í myndarlega pönnukökupönnu sem framleidd er af Málmsteypunni Hellu. Í léttustu
reiðhjólin úr áli þarf einungis um þúsund sprittkertabikara,“ segir Pétur og biðlar til fólks að endurvinna sprittkertin.

„Það er gott ef fólk losar um plötuna með kveiknum áður en það skilar álbikarnum til endurvinnslu, af því að sá hluti er úr stáli og það er alltaf gott að hafa efnin sem hreinust þegar þau fara til endurvinnslu. Þá er auðvitað gott að losa vaxið frá.“

Endurvinnsla á áli er gífurlega hagkvæm en aðeins þarf fimm prósent af upphaflegri orku til að skapa nýja afurð úr endurunnu álinu. Því er mikið í húfi fyrir hagkerfið og
náttúruna að endurvinna sem mest af því áli sem nýtist okkur ekki lengur.


Sjá einnig