Af Kúludalsá og Matvælastofnun

Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls skrifar svargrein í Fréttablaðið um veikindi hrossa á Kúludalsá, þar sem fram kemur að niðurstöður dýralækna gefi „engar vísbendingar um að hrossin hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma.“

Af Kúludalsá og Matvælastofnun

Ragnheiður Þorgrímsdóttir Kúludalsá í Hvalfirði gerir athugasemd við þá staðhæfingu í grein minni 15. janúar sl. að veikindi hrossa á Kúludalsá hafi verið „rannsökuð af opinberum stofnunum“ og að rannsóknir hafi „staðið í mörg ár“.

Um það má segja að veikindin voru fyrst rannsökuð af dýralækni árið 2007 og síðan af dýralæknum Matvælastofnunar árið 2011. Í stuttu máli gefa niðurstöðurnar „engar vísbendingar um að hrossin hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma.“ Yfirdýralæknir hefur staðfest það. Þá hafa sérfræðingar á vegum iðnaðarráðuneytisins haft málið til skoðunar og er beðið lokaskýrslu þaðan.  

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir orðrétt:

„Matvælastofnun hefur nú birt á vef sínum skýrslur með niðurstöðum rannsókna á veikindum hrossa á Kúludalsá í nágrenni Grundartanga. Áður hafði stofnunin birt frétt um niðurstöður rannsóknarinnar sem sýndu engar vísbendingar um að hrossin hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma.

Vísindasamfélaginu ber saman um að vísbendingar um flúormengun komi fyrst fram í beinvef og glerungi tanna enda sýnt fram á að flúor safnast upp í þessum vefjum. Mæling flúors í beinvef er besta leið til að greina flúoreitrun í dýrum. Viðmiðunargildi hafa ekki verið ákvörðuð sérstaklega fyrir hross og því eru rannsóknir á öðrum dýrategundum hafðar til hliðsjónar. Það er styrkur rannsóknar á þremur hrossum frá Kúludalsá að tækifæri gafst til að skoða tennur og bein hrossanna mjög nákvæmlega sem og vefjasýni úr lifur og nýrum. Því er hægt að fullyrða að þau gildi sem komu fram á styrk flúors í beini höfðu ekki heilsufarsleg áhrif á hrossin.

Að þeirri niðurstöðu fenginni eru ekki faglegar forsendur til að mæla styrk flúors í öðrum líffærum enda liggja ekki fyrir viðmiðunargildi sem hægt væri að bera slíkar mælingar saman við. Matvælastofnun getur ekki beitt sér fyrir frekari rannsóknum nema fyrir liggi faglegur rökstuðningur um gagnsemi þeirra.”

Svo mörg eru þau orð. Úr því Ragnheiður er ósátt við niðurstöður sérfræðinga í heilbrigði og velferð dýra er eðlilegt að hún beini gagnrýni sinni þangað.

Sjá einnig