Alcoa dregur úr álframleiðslu í Bandaríkjunum

Í ljósi aðstæðna á álmörkuðum heimsins og lækkandi álverðs hefur Alcoa tilkynnt að dregið verði úr heildarframleiðslu áls um tólf prósent, eða um sem nemur 531 þúsund tonni á ári. Markmiðið er að draga úr kostnaði og styrkja samkeppnishæfni Alcoa á álmörkuðum heimsins, en álverð hefur fallið um 27 prósent frá hæsta verði 2011.

Í þessu skyni verður starfsemi m.a. hætt í verksmiðju Alcoa í Tennessee, en þar var byrjað að draga úr framleiðslu árið 2009, og í verksmiðjunni í Rockdale í Texas verður framleiðslu hætt í tveimur kerlínum af sex.

Heildarframleiðslugeta Alcoa er nú um 4,5 milljónir tonna á ári.

Klaus Kleinfeld, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa, segir að aðgerðirnar séu vissulega sársaukafullar en nauðsynlegar til að unnt sé að vernda störf á öðrum starfsstöðvum Alcoa í heiminum. Þar sem aðgerðirnar bitna harðast á nærsamfélaginu mun Alcoa taka upp nána samvinnu við starfsfólk, verkalýðsfélög og sveitarfélög í því skyni að finna leiðir til að hefja aðra starfsemi í þeim verksmiðjum sem hefur verið lokað.

Hjá Fjarðaáli verður, eins og hjá öðrum álverum Alcoa, gætt enn strangara kostnaðaraðhalds á þessu ári. Janne Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls segir að þar sem álverið sé nýjasta og eitt hagkvæmasta álver fyrirtækisins telji hún hverfandi líkur á að dregið verði úr framleiðslu þess.


Sjá einnig