Alcoa í fararbroddi sjálfbærnivísitölu Dow Jones

Alcoa í fararbroddi sjálfbærnivísitölu Dow Jones

Álfyrirtækið Alcoa Corp. tilkynnti í lok september að fyrirtækið hafi verið valið á sjálfbærnilista Dow Jones (Dow Jones Sustainability Indices, DJSI).

DJSI leggur mat á starfsemi stórra fyrirtækja víða um heim út frá sjónarhorni sjálfbærrar þróunar. Alcoa var valið á lista DJSI sem leiðandi fyrirtæki í námuvinnslu og málmframleiðslu, meðal annars í flokkunum frammistaða í umhverfismálum, stjórnarhættir stórfyrirtækja, áhættu- og áfallastjórnun, stefnumörkun í loftslagsmálum, mannauðsmál og þjóðfélagsleg áhrif.

Alcoa Corp. fetar í fótspor fyrrverandi móðurfélags síns, þar sem Alcoa Inc. var á sjálfbærnilista Dow Jones í fimmtán ár í röð allt fram að því að fyrirtækinu var skipt upp í tvö fyrirtæki á síðasta ári.

Heilindi, árangur og umhyggja

Michelle O'Neill, aðalframkvæmdastjóri sjálfbærnimála og samskipta við hið opinbera á alþjóðavísu hjá Alcoa Corporation, segir að sú staðreynd að fyrirtækið hafi verið valið á listann endurspegli hversu mikla áherslu Alcoa leggi á ábyrgð sína gagnvart umhverfinu og alþjóðasamfélaginu.

„Starfsmenn Alcoa um allan heim eiga heiðurinn af vali fyrirtækisins á listann vegna ódrepandi eldmóðs þeirra. Gildin okkar, sem felast í því að vinna af heilindum, ná afbragðs árangri og sýna umhyggju fyrir fólki, leggja grunninn að stefnufestu okkar í daglegu starfi. Þannig lágmörkum við þau áhrif sem rekstur fyrirtækja okkar hefur á umhverfið og aukum þau verðmæti sem við færum þjóðfélaginu.“

Sagan hófst árið 1988

Alcoa á sér að baki langa og þekkta sögu sem hófst með því að Charles Martin Hall stofnaði Pittsburgh Reduction Company árið 1888 ásamt Alfred E. Hunt. Hall var annar þeirra sem uppgötvuðu aðferð til að framleiða ál og er hún nefnd eftir þeim tveim, Hall-Héroult framleiðsluferlið. Tvímenningarnir Hall og Hunt voru komnir af stað með álframleiðslu á þremur stöðum árið 1895. Árið 1907 var nafni fyrirtækisins breytt í The Aluminum Company of America en þremur árum síðar var byrjað að nota styttinguna „Alcoa".

Í fyrra flutti Alcoa virðisaukandi framleiðsluna yfir í annað fyrirtæki, Arconic, en hélt eftir báxítvinnslu, súráls- og álframleiðslu. Fyrr á þessu ári flutti Alcoa höfuðstöðvar fyrirtækisins aftur til Pittsburgh eftir ellefu ára viðveru í New York. Auk álframleiðslu er Alcoa áberandi í rannsókna- og þróunarstarfsemi og rekur margar rannsóknarstofur víðs vegar um Bandaríkin en sú stærsta þeirra er skammt frá Pittsburgh.

 

Sjá einnig