Áliðnaður skilar bæði verðmætum og nýsköpun

Kynning Samtaka álfyrirtækja, 18. nóv. 2010, Listasafni Sigurjóns

Ávarp Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra

Góðir gestir

Fyrst af öllu vil ég óska áliðnaðinum til hamingju með nýstofnuð samtök.

Hér sameinast atvinnugrein sem stendur undir meira en fimmtungi af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar.

Ég fagna því að Samál hyggist leggja sérstaka áherslu á upplýsingagjöf enda þurfum við að eiga upplýsta og yfirvegaða umræðu um eina mikilvægustu útflutningsgreinar þjóðarinnar.

Ég vænti þess líka að stofnun samtaka álfyrirtækja hvetji þau til enn frekari átaka á sviði umhverfismála en þar hefur íslenski áliðnaðurinn verið í fremstu röð á heimsvísu.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn af áli hér á landi er aðeins um 20% af því sem gerist í Evrópu.

Framþróunin í umhverfismálum hefur líka verið mikil og frá 1990 hefur losun per tonn dregist saman um nær 75%.

Þótt hröð uppbygging íslensks áliðnaðar og umfangsmiklar framkvæmdir til orkuöflunar hafi verið tilefni deilna á undanförnum árum blasir við nú á samdráttarskeiðinu hve mikilvægar stöðugar gjaldeyristekjur iðnaðarins eru fyrir þjóðarbúið.

En ég vil ekki einskorða umræðu um framlag áliðnaðarins til þjóðarbúsins við fjölda starfa eða útflutningstekjur.

Við megum ekki líta fram hjá því að greinin og tilheyrandi orkuöflun hefur fært okkur aukna þekkingu og nýsköpun.

Íslenskir hönnuðir, verkfræðingar og frumkvöðlar spreyttu sig á hönnun og undirbúningi orkuvera og verksmiðja og sprotafyrirtæki hafa orðið til tengd þjónustu við álver.

Til verður verðmæt þekking sem nú er að verða útflutningsvara enda vaxandi eftirspurn eftir reynslu og þekkingu í nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda um heim allan.

Í lok síðasta mánaðar tók ég þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um endurnýjanlega orku í Dehli á Indlandi.

Þar hitti ég fulltrúa stjórnvalda, héraðsstjórna og orkufyrirtækja og skemmst er frá því að segja að þessir aðilar hafa ákveðið að vænlegt sé að leita samstarfs við Íslendinga um fyrirhugaða orkunýtingu.

Hér er því galopið einstakt tækifæri fyrir íslenska orkugeirann því Indverjar munu taka ákvarðanir um mörg stórverkefni á næstunni.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um sóknarfærin sem uppbygging síðustu áratuga getur skapað.

Við þurfum einmitt að nýta sóknarfærin til að vinna okkur út úr efnahagsþrengingum.

Ég held varla nokkra ræðu án þess að nefna að út úr kreppu er ekki hægt að stytta sér leið né finna töfralausnir.

Aðeins aukin verðmætasköpun snýr hjólunum á ný og skapar atvinnu og þar með eftirspurn.

Þess vegna var sérstaklega ánægjulegt nú í haust þegar ákvörðun lá fyrir um framleiðsluaukningu álversins í Straumsvík.

Framleiðsluaukningin og breytingar vegna nýrra afurða er stærsta einstaka fjárfestingin í atvinnuuppbyggingu frá falli fjármálakerfisins.

Henni tengist líka stór fjárfesting Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun.
Samanlagt eru þetta fjárfestingarverkefni upp á um 86 milljarða og skapa 1300 ársverk á framkvæmdatímanum.

Við núverandi aðstæður er eðlilega horft til stærri fjárfestingaverkefna, ekki síst erlendra því þannig kemur nýtt eigið fé inn í hagkerfið.

Það verkefni sem lengst er komið og hefur öll tilskilin leyfi er einmitt álver Norðuráls í Helguvík.

Þar mun framvindan því fyrst og fremst ráðast af niðurstöðum samninga um kaup á orku.

Á Norðausturlandi leitar Landsvirkjun að kaupanda sem vill nýta orkuna í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Reyndar eru mörg önnur fjárfestingarverkefni til skoðunar og sum nokkuð langt komin.

Flest byggja á því að nýta íslenska endurnýjanlega orku.

Stærsta ógnin við framgang slíkra verkefna á næstu misserum er staða Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Orðspor landsins og óleyst Icesave deila valda orkufyrirtækjum okkar og fjárfestum erfiðleikum við að fjármagna nauðsynleg uppbyggingarverkefni.

Á þetta benti forstjóri Landsvirkjunar á haustfundi fyrirtækisins nýlega og forstjóri Össurar ítrekaði það svo eftir var tekið í gærmorgun.

Endurheimt traust og eðlileg starfsskilyrði með afnámi gjaldeyrishafta er mikilvægasta framlag stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar á næstu árum. 

Ég hef á stundum undrast þá sem skammast yfir því að hér skuli ekki vera hraðari uppbygging út um annað munnvikið á meðan þeir tala gegn lausn á brýnustu úrlausnarmálum eða framtíðarskipan gjaldeyrismála með hinu.

Sem ráðherra nýsköpunar legg ég vitaskuld þunga áherslu á að við skjótum sífellt fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf okkar og deili þeirri framtíðarsýn orkugeirans að við fáum kaupendur orkunnar úr fleiri greinum.

En það breytir því ekki að áliðnaðurinn verður áfram mikilvægur hluti af efnhagslífi okkar og mun skila bæði verðmætum og nýsköpun.

Sjávarútvegurinn er enn meðal okkar verðmætustu greina og nýsköpunarfyrirtæki sprottin úr þeim jarðvegi hafa haslað sér völl á alþjóðavísu.

Landbúnaður hvarf heldur ekki með uppgangi sjávarútvegs og þótt hann sé lengur burðarás í útflutningi er hann mikilvæg uppspretta atvinnu víða um land og tengist ferðaþjónustu og nýsköpun í matarmenningu órjúfanlegum böndum.

Ég nefni þessi dæmi hér vegna þess að ég nýsköpun og framþróun í atvinnumálum byggir ekki á vali um annaðhvort eða.

Nýsköpun nefnilega ekki bara að sækja eitthvað nýtt sem á að taka við af því sem fyrir er heldur ekki síður að finna nýjar leiðir til að byggja á þann grunn sem fyrir er, nýta fyrirliggjandi þekkingu, reynslu og aðstæður og bæta við.

Ég kvíði því ekki sambýli orkufreks iðnaðar við sjávarútveginn, landbúnaðinn eða vaxandi hátækniiðnað svo fremi sem okkur tekst að skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir nýsköpun og verðmæt störf.

Og ég fagna því ef nýstofnuð Samtök álfyrirtækja vilja taka höndum saman um það verkefni.


Sjá einnig