Álver hreinni á megavatt

Í frétt Mbl.is þann 27. júní er ítrekað fullyrt að kísilvinnsla sé hreinni en álvinnsla. Staðhæfingin er ekki beinlínis útskýrð en af samhenginu má ráða að hún byggist alfarið á því að kísilverin eru minni en álver.
 

Á sama hátt má segja að jeppar séu hreinni samgöngumáti en strætisvagnar. Hver jeppi mengar jú minna en hver strætisvagn. En augljóst er að það segir ekki alla söguna um umhverfisáhrifin; skoða þarf mengun á hvern farþega.

Hvernig berum við þá saman mengun frá ólíkum gerðum stóriðjuvera? Framleiðslumagn í tonnum er lélegur mælikvarði því afurðir eru gerólíkar og það hefur í sjálfu sér enga þýðingu hvort þær eru léttar eða þungar. Á þann mælikvarða yrði blýverksmiðja alltaf umhverfisvænst en dúnhreinsun mesti umhverfissóðinn, hvort tveggja líklega óverðskuldað. Skynsamlegra er að miða við orkunotkun hverrar verksmiðju, því að með uppbyggingu stóriðjuvera er jú verið að ráðstafa takmörkuðum orkuauðlindum og eitt af því sem við viljum gjarnan vita er hvaða ráðstöfun orkunnar veldur minnstri mengun.

Í frétt Mbl.is voru birtar upplýsingar um bæði mengunina og orkuna: sýnd var aflþörf þeirra þriggja kísilmálmverksmiðja sem til stendur að reisa hér á landi ásamt áætlaðri losun þeirra á CO2 (koltvísýringi) og SO2 (brennisteinsdíoxíði), og sömu upplýsingar um álverið á Grundartanga.

Í fréttinni var því miður ekki reiknuð losun á hvert megavatt, en það er vitaskuld sáraeinfalt út frá þessum upplýsingum. Í ljós kemur algerlega skýr og afdráttarlaus niðurstaða: álverið losar margfalt minna af CO2 á hvert megavatt en hver kísilmálmverksmiðja eða 880 tonn samanborið við 2.300-3.490 tonn, og sömuleiðis umtalsvert minna af SO2 eða 6,7 tonn samanborið við 8-11,9 tonn.

Sú fullyrðing blaðamanns, sem einnig er höfð eftir starfsmanni Umhverfisstofnunar, að álver mengi „hlutfallslega meira“ en kísilmálmverksmiðjur er því úr lausu lofti gripin og gengur þvert gegn tölunum í fréttinni sjálfri. Enda hefur viðkomandi starfsmaður Umhverfisstofnunar staðfest að þetta orðalag, „hlutfallslega meira“, hafi ekki verið í samhengi við innihald greinarinnar heldur hafi upplýsingar af hans hálfu átt við um heildarlosun efna út í umhverfið frá hverri og einni verksmiðju.

Það kemur engum á óvart að jeppinn sé hreinni en strætisvagninn ef skoðuð er heildarlosun. Eftir stendur, og meiru skiptir, að strætisvagn fullur af fólki er hreinni á hvern farþega.

Vart þarf að taka fram að skoða þyrfti fleiri þætti, bæði jákvæða og neikvæða, til að meta umhverfisáhrif í heild, en hvað efnistök þessarar fréttar snertir er niðurstaðan alveg skýr og afdráttarlaus.

Áliðnaðurinn gengst að sjálfsögðu við þeirri mengun sem hann veldur. Hann stendur að mörgu leyti sterkt að vígi hvað það varðar. Og öll viljum við njóta sannmælis.

Ólafur Teitur Guðnason

Höfundur er upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi.


Sjá einnig