Þjóðhagsleg staða og þróun íslensks áliðnaðar

Heildarframlag álklasans til landsframleiðslu nam nálægt 6,8% af landsframleiðslu á árunum 2011 og 2012. Ef horft er til eftirspurnaráhrifa var framlagið tæp 9% árið 2012. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Þjóðhagslega stöðu og þróun íslensks áliðnaðar, sem unnin var fyrir Samál, samtök álframleiðenda.

Í samantekt skýrslunnar segir: „Frá því að fyrsta álfyrirtækið hóf starfsemi sína á Íslandi árið 1969 hafa tvö önnur bæst í hópinn og framleiðslugetan rúmlega 24 faldast.

Rök hafa verið færð fyrir því að svokallaður orku-áliðnaður, þ.e. áliðnaðurinn, ásamt þeirri raforku sem hann nýtir, sé grunnatvinnuvegur í íslensku efnahagslífi en til grunnatvinnuvega teljast þeir atvinnuvegir sem geta staðið án stuðnings annarra atvinnuvega.

Álfyrirtækin skipta árlega við hundruð annarra íslenskra fyrirtækja og hafa ný fyrirtæki sprottið upp í kringum áliðnaðinn. Þannig má ætla að hér hafi myndast svokallaður álklasi, þ.e. hópur efnahagslega tengdra fyrirtækja sem eru samkeppnishæfari en ef klasans nyti ekki við.

Í þessari skýrslu er lagt mat á efnahagslegt umfang áliðnaðarins og tengdrar starfsemi. Vegna breytingar í flokkunarkerfi er tímabilinu skipt í tvennt, þ.e. 2007-2010 og áranna 2011 og 2012.

Sé litið til áranna 2007-2010 sýna útreikningar að um 17% af heildarveltu veita megi rekja til kaupa áliðnaðarins á raforku og flutningi þess frá Landsvirkjun og Landsneti. Önnur viðskipti áliðnaðar við bálkinn eru meðal annars vegna notkunar á vatni og hita. Þá eiga tveir aðrir atvinnubálkar 10% eða meira af heildarveltu sinni undir áliðnaðinum, þ.e. vélsmíði og vélaviðgerðir og opinber stjórnsýsla; almannatryggingar.

Þegar litið er til meðaltals áranna 2011 og 2012 sést að bálkarnir rafmagns, gas og hitaveitur, viðgerðir og uppsetning vélbúnaðar og tækja og framleiðsla á málmvörum, að undanskildum vélum og búnaði eiga meira en 10% af veltu sinni undir áliðnaðinum. Aðrir atvinnuvegir eiga töluvert minna undir áliðnaðinum.

Máli er slegið á beint framlag álklasans til landsframleiðslu, þ.e. samtölu beins og óbeins framlags orku-áliðnaðarins, og nam það nálægt 6,8% af landsframleiðslu á árunum 2011 og 2012.

Lauslegt mat á heildarframlagi álklasans, þ.e. beint og óbeint framlag að viðbættum svonefndum eftirspurnaráhrifum (margfaldaraáhrifum) sýnir að það hafi verið ríflega 5% á árinu 2007 en vaxið síðan í rúm 10% á árunum 2010 og 2011 en verið tæp 9% á árinu 2012. Þessum niðurstöðum verður að taka með nokkrum vara þar sem ekki hefur verið gerð sérstök úttekt á umfangi eftirspurnaráhrifa álklasans, heldur miðað við ákveðnar forsendur um innflutningshneigð og aðrar takmarkanir, sem og samanburð við aðrar atvinnugreinar.“

Skýrsla: Þjóðhagsleg staða og þróun íslensks áliðnaðar (PDF)

Sjá einnig