Aukin framleiðsla álversins á Grundartanga

Norðurál fyrirhugar nú að breyta og auka við framleiðslu í álverinu á Grundartanga. Fjallað er um þá framkvæmd í sérblaði Viðskiptablaðsins um orkumál í dag. Þá eru í skoðun nokkrar útfærslur á fjölbreyttari og flóknari afurðum sem unnar verða úr því áli sem álverið framleiðir.

„Þetta er fjárfesting fyrir á annan tug milljarða íslenskra króna, auk kaupa móðurfélags Norðuráls á rafskautaverksmiðju í Hollandi sem framleiðir rafskaut fyrir Grundartanga og fyrirhugað álver okkar í Helguvík," segir Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, um málið.

Fyrirtækið áformar að auka ársframleiðslugetu í álveri sínu á Grundartanga úr 300 þúsund tonnum í allt að 350 þúsund tonn með því að hækka þann rafstraum sem leiddur er í framleiðslukerin. Sérfræðingar Norðuráls hafa í nokkur ár unnið að útfærslum sem gera það kleift. Framleiðsluaukning með straumhækkun byggir fyrst og fremst á tækninýjungum en ekki er um neina fjölgun kera eða stækkun kerskála að ræða.


Sjá einnig