Endurvinna og endurnýta 99,8%

Álver Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði gæti mögulega verið umhverfisvænasta álver heims. Ekki aðeins er hrein og endurnýjanleg orka notuð við framleiðsluna heldur eru allar aukaafurðir endurunnar og hönnun álversins þannig að umhverfisáhrifum er haldið í lágmarki. Þannig hefst fréttaskýring Ásgeirs Ingvarssonar fyrir Morgunblaðið.

Ennfremur segir:

„Dagmar Ýr Stefánsdóttir er upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls: „Í upphafi var mörkuð sú stefna að endurvinna eða endurnýta 100% af öllum aukaafurðum sem verða til í álverinu. Í dag er þetta hlutfall komið upp í 99,8%.“

Meðal þess sem fellur til við álframleiðslu, og myndi að öðrum kosti fara í landfyllingu eða urðun, eru skautleifar, álgjall og kerbrot. Skautleifarnar eru endurnýttar í Noregi og kerbrotin fara til Bretlands og nýtast þar í sementsframleiðslu. „Þessi 0,2% sem en vantar upp á eru nær eingöngu lífrænn úrgangur, og kemur til af því að hér er ekki nein moltustöð,“ segir Dagmar en bætir við að vonir standi til þess að hægt verði að koma upp slíkri starfsemi á svæðinu í framtíðinni.

Hafa gætur á vatninu

Hönnun starfseminnar miðar að því að ekkert framleiðsluvatn renni til sjávar. Þess í stað er framleiðsluvatnið sem álverið notar í lokuðu kerfi þar sem það er hreinsað og endurnýtt. „Álverslóðin er þannig hönnuð að allt regnvatn sem fellur niður á álverssvæðið fer eftir sérstökum lögnum í settjarnir hér á lóðinni þar sem vatnið er hreinsað á náttúrlegan hátt áður en það rennur til sjávar. Vöktum við þessar tjarnir vel og tökum þar reglulega sýni.“

Dagmar segir Alcoa leggja á það áherslu á heimsvísu að halda áhrifum á umhverfið í lágmarki. „Við vinnum í anda sjálfbærrar þróunar og viljum taka virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. Alcoa hefur verið leiðandi í að þróa og innleiða nýja tækni til að gera framleiðsluna umhverfisvænni,“ útskýrir Dagmar og bætir við að innan Alcoa-fjölskyldunnar sé álverið í Reyðarfirði lengst komið hvað varðar að lágmarka umhverfisáhrifin, bæði með tilliti til útblásturs flúors sem og endurnýtingar framleiðsluvatns og aukaafurða.

En að hvaða marki gagnast það Alcoa Fjarðaáli að leggja svona ríka áherslu á umhverfið? Það væri hægt að gera hlutina á annan og ódýrari hátt, og spara siglingar yfir hafið með kerbrot og skaut á leið til endurvinnslu. Dagmar segir ávinninginn meðal annars koma fram í stolti starfsmannanna. „Það hefur klárlega áhrif á starfsandann, og starfsfólkinu þykir gott að vita að hér gera allir sitt besta í þessum málaflokki. Þetta er einnig samfélagslega ábyrgt en við sem fyrirtæki leggjum mikla áherslu á að starfa í sátt við samfélag og umhverfi.“

Áhugi á umhverfisvænna áli

Það gæti líka verið að í umhverfisstefnunni fælist markaðstækifæri. „Ég held að við gætum gert enn betur í að markaðssetja það starf sem hér hefur verið unnið. Víða um heim sækjast fyrirtæki eftir því að nota ál sem er sem umhverfisvænst en greinin glímir við að umhverfisverndarhugtökin hafa ekki sömu merkingu á öllum stöðum. Þannig vísar það t.d. yfirleitt til endurunnins áls þegar talað er um „grænt ál“. Er þó ljóst að álframleiðslan hjá okkur og hjá öðrum álverum á Íslandi er mjög græn þar sem lágmarksmengun er af raforkuframleiðslunni miðað við það sem gengur og gerist t.d. þar sem álver eru knúin með rafmagni frá öðrum orkugjöfum.““

Sjá einnig