Kelly Driscoll frá greiningarfyrirtækinu CRU flytur erindi sitt á ársfundi Samáls í morgun. Ljósmynd…
Kelly Driscoll frá greiningarfyrirtækinu CRU flytur erindi sitt á ársfundi Samáls í morgun. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Hækkun álverðs mun taka nokkur ár

„Álmarkaðurinn á í erfiðleikum um þessar mundir,“ segir dr. Kelly Driscoll, sérfræðingur ráðgjafarfyrirtækisins CRU Analysis sem þjónar fyrirtækjum á sviði málma, námavinnslu og áburðar um allan heim. Í viðtali sem Bjarni St. Ottósson tók fyrir Morgunblaðið segir ennfremur:

Driscoll mun kynna markaðsgreiningu CRU á ársfundi Samáls í Kaldalóni í Hörpu í dag. Fallandi heimsmarkaðsverð, ódýrt niðurgreitt ál frá Kína og hækkandi kostnaður ógna áliðnaði iðnríkjanna, en hríðlækkandi raforkuverð hefur hins vegar komið álverum til góða. Það ýtir þó á sama tíma undir offramleiðsluna með tilheyrandi verðlagsáhrifum.

Spá hækkun innan fárra ára

Áliðnaðurinn er í niðursveiflu um þessar mundir en álverð hefur haldist lágt og er nú í kringum 1.600 bandaríkjadalir tonnið. Driscoll spáir talsverðri hækkun til lengri tíma litið, allt að 60%, en nokkurra ára bið sé eftir því enn að verulegar hækkanir eigi sér stað. Að óbreyttu segir Driscoll áliðnaðinn ekki geta unað við núverandi verð til langframa.

„Við horfum til tveggja þátta þegar kemur að afkomu álveranna. Fyrst er það fjárstreymið, hvort tekjur þeirra hrökkva fyrir kostnaði. Það er núna nóg til skamms tíma en til lengri tíma þurfa þau að standa undir fjármagnskostnaði og nauðsynlegum fjárfestingum. Til þess þarf álverðið að vera einhvers staðar á bilinu 2.200-2.300 dalir á tonnið.“

Möguleikar í „grænu“ áli

Á komandi árum sér CRU fram á talsverð tækifæri í sölu á áli sem framleitt hefur verið á umhverfisvænan hátt, t.a.m. með hreinum og endurnýtanlegum orkugjöfum. Stór hluti orkunnar sem nýtt er til álvinnslu víðast hvar í heiminum er framleiddur ýmist með kolabrennslu, kjarnorku eða gasi. Hafa Ísland og Kanada nokkra sérstöðu hvað það varðar en bæði lönd knýja álver sín með endurnýtanlegum orkugjöfum.

„Neytendur eru sífellt meðvitaðri um umhverfisvæna kosti,“ segir Driscoll sem segir þó nokkuð í það að álver sem nýti slíka orku geti innheimt álag á vöruna vegna þess. „Hugsanlega mun einhvers konar vottunarferli þurfa til.“

Þá reka nýjar kröfur um eldsneytisnýtingu bíla einnig áfram eftirspurn eftir áli, en léttari íhlutir úr áli spara talsverða þyngd í bílum og bæta þannig eldsneytisnýtingu.

Snúið aftur í álverðstengingu

Nýverið segir Driscoll kanadísk álver hafa setið undir miklum þrýstingi til þess að aflétta tengingu álverðs og verðs raforku til veranna. „Þessi ákvæði eru algeng í slíkum samningum en yfirvöld í Kanada reyndu að losna við þau í nýjum samningum. Eftir að álverð lækkaði svo og álverin lentu í rekstrarerfiðleikum var því svo breytt. Þeir vildu ekki hætta á að álverunum yrði lokað. 

Stóraukin framleiðni síðustu ár

Samkvæmt greiningu CRU hefur kostnaður álveranna á heimsvísu lækkað um u.þ.b. fjórðung frá 2011. Á sama tíma hefur framleiðslan aukist úr 46,6 milljónum tonna árið 2011 í 59,4 milljónir tonna árið 2016. 

Kínverjar eru langstærstu framleiðendur áls í heiminum og hafa síðustu ár framleitt talsvert umfram eftirspurn á heimamarkaði.

„Á síðustu tveimur árum hefur álverð lækkað og verksmiðjum með alls 2,5 milljóna tonna árlega framleiðslugetu verið lokað í heiminum utan Kína. Á sama tíma höfum við séð álverum með 4 milljóna tonna framleiðslugetu lokað í Kína, svo Kínverjar eru einnig að bregðast við lækkandi álverði.“

Almennt segir Driscoll það vera eldri álver sem komin eru á tíma, á svæðum þar sem raforkuverð hefur hækkað, sem hefur verið lokað. Þeim hafi þó verið lokað varanlega á meðan sum kínversk ver hafi verið gangsett á ný með bættum markaðsaðstæðum.

Sjá einnig