Til marks um þá innspýtingu í efnahagslífið má nefna að innlendur kostnaður álvera á Íslandi hefur n…
Til marks um þá innspýtingu í efnahagslífið má nefna að innlendur kostnaður álvera á Íslandi hefur numið 80 til 100 milljörðum á síðustu árum og felst m.a. í raforkukaupum, kaupum á vörum og þjónustu, launum og launatengdum gjöldum, sköttum og opinberum gjöldum og framlögum til samfélagsverkefna, skrifar Pétur Blöndal í Viðskiptablaðið.

Fleiri stoðir atvinnulífs

Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er forsenda sóknar í lífsgæðum á Íslandi. Innviðirnir hafa verið að styrkjast á liðnum áratugum og stoðum efnahagslífsins hefur fjölgað. Um leið hefur dregið úr sveiflum í hagkerfinu. Og öfugt við það sem sumir halda, þá efla og næra atvinnugreinarnar hver aðra. Það er styrkur í fjölbreyttu atvinnulífi.

Styrking innviða á Austurlandi

Nærtækt dæmi er sú uppbygging sem átt hefur sér stað með tilkomu Fjarðaáls á Austurlandi, ekki eingöngu á Reyðarfirði heldur einnig í nágrannasveitarfélögunum. Það er ekkert leyndarmál að ein forsenda vélvæðingar og hagræðingar hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað er að kominn er annar stór vinnuveitandi á svæðið. Þá hefur styrking innviða greitt götu margvíslegrar þjónustu sem meðal annars hefur byggst upp í ferðaþjónustu. Eitt dæmi af mörgum er Lostæti sem annast mötuneyti álversins, en það kom á fót metnaðarfullu handverksbakaríi og kaffihúsi, Sesam brauðhúsi, á Reyðarfirði. Uppbyggingin hefur fært byggðirnar saman og eflt þær sem eitt atvinnusvæði. Og auðvitað var löngu tímabært að Norðfjarðargöng yrðu að veruleika.

Hagkvæmari orkunýting en ella

Óhætt er að segja að atvinnulífið hafi orðið fjölbreyttara og um leið þróttmeira með uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi, sem hélst í hendur við uppbyggingu áliðnaðar. Langtímasamningur við Alusuisse og uppbygging álversins í Straumsvík var forsendan fyrir stofnun Landsvirkjunar fyrir rúmri hálfri öld og þannig tókst íslenska ríkinu að fjármagna Búrfellsvirkjun. Öflugar vatnsaflsvirkjanir hafa gefið Íslendingum kost á orkunýtingu, sem ella hefði verið í smærri og óhagkvæmari skrefum. Það hefur aftur tryggt heimilum á fámennri og harðbýlli eyju orku á lágu verði og íslenskum iðnaði samkeppnishæft verð.

Það var ánægjulegt að heyra þau tíðindi á síðasta haustfundi Landsvirkjunar að arðgreiðslur gætu numið 110 milljörðum á árunum 2020 til 2026 og þó muni ekki draga úr framkvæmdagetu fyrirtækisins. Þetta þarf samt ekki að koma á óvart. Afkoman er eftir væntingum og uppskeran eins og til var sáð í upphafi. Oft vill gleymast í þeirri orðræðu, að það eru stóriðjufyrirtækin sem hafa staðið straum af uppbyggingunni. Til marks um þá innspýtingu í efnahagslífið má nefna að innlendur kostnaður álvera á Íslandi hefur numið 80 til 100 milljörðum á síðustu árum og felst m.a. í raforkukaupum, kaupum á vörum og þjónustu, launum og launatengdum gjöldum, sköttum og opinberum gjöldum og framlögum til samfélagsverkefna.

Það segir sína sögu að eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar, ef marka má fregnir af stjórnarsáttmálanum, verði að koma á þjóðarsjóði sem stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu, og að inn í hann eigi að renna arðgreiðslur úr orkufyrirtækjum.

Búrfellsvirkjun gengur í endurnýjun lífdaga

Íslendingar hafa eignast eitt öflugasta raforkukerfi á heimsvísu og er þá nánast sama hvaða mælikvarði er notaður. Og fjárhagsstaða þjóð­ arfyrirtækisins Landsvirkjunar er sterk þrátt fyrir ungan aldur virkjana fyrirtækisins, en fjármagnskostnaður er auðvitað mestur á upphafsárunum. Komið hefur fram hjá forstjóra Landsvirkjunar að það gangi í samræmi við væntingar að lækka skuldirnar og jafnvel betur.

Fjárhagsstaðan segir raunar ekki alla söguna um eignamyndun orkufyrirtækja, því vatnsaflsvirkjanir eru í bókhaldinu afskrifaðar á 60 árum. Líftími virkjananna er hinsvegar mun lengri og geta þær starfað í 100 ár og þess vegna umtalsvert lengur. Gott dæmi um það er Búrfellsvirkjun, en með fjárfestingu í hverflum hennar jókst aflið um þriðjung árið 1997. Og það var merkilegt að hlusta á Ásbjörgu Kristinsdóttur yfirverkefnastjóra lýsa því nú á haustfundinum, einungis áratug síðar, hvernig stækkun Búrfellsvirkjunar muni skila 100 megavöttum til viðbótar með því að nýta betur vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár.

Margvíslegur þjóðhagslegur ávinningur

Jón Þór Sturluson hagfræðingur greinir afkomu Landsvirkjunar og þjóðhagsleg áhrif stóriðju í 40 ára afmælisriti Landsvirkjunar sem kom út árið 2005. Hann bendir á að afkoma Landsvirkjunar hafi á köflum verið talsvert lakari en menn væntu í aðdraganda stofnunar fyrirtækisins og segir að fyrir því séu þrjár meginorsakir: „Misræmi milli framboðs og eftirspurnar, ójafnvægi í gengisbindingu langtímalána og tekna, og verðlagshöft.“ Ekkert af því má rekja til stóriðju sérstaklega. Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar reiknar Jón Þór út að arðsemi þess fjár sem eigendur hafi bundið í fyrirtækinu sé á bilinu 5,1 til 7,4%.

En það er ekki eini þjóðhagslegi ávinningurinn, að mati Jóns Þórs. „Uppbygging stóriðju og tengdra orkumannvirkja snertir íslenska hagsmuni með margs konar öðrum hætti en þeim sem kemur fram í rekstri Landsvirkjunar,“ skrifar hann. „Nefna má vinnulaun og skatttekjur, umfram það sem annars hefði orðið; virðisauka í öðrum atvinnugreinum, vegna sölu á aðföngum hvers konar; lægra orkuverð en ella vegna stærðarhagkvæmni í virkjun vatnsafls sem ekki myndi nýtast án samhliða sölu til stóriðju; jákvæð hagstjórnar­ áhrif, ef vel tekst til með tímasetningar framkvæmda, og síðast en ekki síst fjölþættingu frumframleiðslu í landinu.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Sjá einnig