Heimsmarkaðurinn

Framleiðsla áls hefur aukist jafnt og þétt á síðastliðnum 120 árum. Árið 1900 voru framleidd 8 þúsund tonn af áli í heiminum. Árið 1950 voru framleidd um tvær milljónir tonna en árið 2010 var heimsframleiðslan komin yfir 40 milljónir tonna af áli. Þá var áætlað að árleg frumframleiðsla áls yrði 60 milljónir tonna árið 2030, en eftirspurnin hefur aukist mun hraðar en búist var við og fór í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna árið 2013 og er útlit fyrir að hún fari yfir 60 milljónir tonna árið 2016.

Eftirspurn eftir áli fer stöðugt vaxandi. Mörg þróunarlönd eru óðum að iðnvæðast, ekki síst hin fjölmennustu þeirra eins og Kína og Indland. Í þeirri uppbyggingu leikur álið stórt hlutverk. Vaxandi fólksfjöldi leiðir almennt af sér aukna notkun áls eins og annarra málma og á meðan önnur efni, með svipaða eiginleika, koma ekki fram á sjónarsviðið eykst eftirspurnin. Vaxandi ferðamennska hefur einnig í för með sér meiri álnotkun í flugvélasmíði og notkun áls mun aukast við smíði annarra samgöngutækja á kostnað annarra efna, vegna viðleitninnar til að spara orku í samgöngum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Auðvelt er að endurvinna ál vegna lágs bræðslumarks. Aðeins þarf 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess. Um 30 milljónir tonna af áli eru endurunnin á ári hverju. Áætlað er að um 2/3 hlutar alls áls sem framleitt hefur verið í heiminum frá 1880 sé enn í notkun, meðal annars vegna þess hve auðvelt er að endurvinna það. Á Íslandi er yfir 85% af notuðum áldósum skilað til endurvinnslu.

Vegna þess hve álvinnsla er raforkufrek eru álver staðsett nálægt uppsprettu orkunnar, þar sem greiður aðgangur er að vatnsafli, jarðgasi, kolum eða kjarnorku. Flest álver í heiminum hafa hingað til notað óendurnýjanlega orkugjafa en með kröfu um viðnám gegn losun gróðurhúsalofttegunda vilja æ fleiri álframleiðendur nýta hreina orku til framleiðslunnar. Það gerir Ísland að eftirsóttari stað til álvinnslu.


Sjá einnig