Konur að störfum hjá Fjarðaáli.
Konur að störfum hjá Fjarðaáli.

Hvers vegna stýra konur ekki fleiri stórfyrirtækjum?

„Þegar horft er til þess að fjölbreytt þekking og reynsla æðstu stjórnenda fyrirtækja hefur bein áhrif á fjárhagslegan ávinning þeirra á maður erfitt með að skilja hvers vegna stór meirihluti æðstu stjórnenda fyrirtækja hér heima og erlendis er svona einsleitur,“ segir Ruth Elvarsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Alcoa Fjarðaáli í viðtali í Frjálsri verslun, en í júní var það helgað 100 áhrifamestu konum á Íslandi árið 2016. Hún segir ennfremur: 

„Samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar hefur konum fækkað í starfi forstjóra á listanum yfir stærstu fyrirtæki landsins – og af þeim tíu stærstu er aðeins ein kona í starfi forstjóra. Samkvæmt Fortune fækkar sömuleiðis kvenforstjórum í fyrirtækjum á lista blaðsins yfir 500 stærstu fyrirtæki – eða úr 24 konum árið 2014 í 22 konur árið 2015. Þetta er ekki í samræmi við væntingar. 

Meirihluti útskrifaðra nemenda í viðskiptafræðum og öðrum stjórnunarfræðum frá háskólum hér heima og erlendis er konur. En hvar eru þær þá þegar kemur að starfi forstjóra? Er það ráðningarferlið sem hefur áhrif á hlutfall kynjanna í forstjórastöðum? Ekki að mati ráðningarskrifstofanna, sem segjast alls ekki gera mun á kynjum þegar farið er yfir umsækjendur heldur sé hæfasti umsækjandi valinn í viðkomandi starf.

Þegar skoðað er hlutfall umsækjenda um forstjórastöður eru konur oft innan við 20% þeirra sem sækja um og því ættu niðurstöðurnar ekki að koma á óvart. Þetta á líka við um almennar stjórnunarstöður. Það eru færri konur til að velja úr. Ekkert fyrirtæki sækir umsækjendur út í horn til að ná í hæfasta stjórnandann. Konur jafnt sem karlmenn þurfa að sækjast eftir þessum stöðum. En hvers vegna sækjast konur ekki eftir æðstu stjórnunarstöðum? Er það kannski menning viðskiptalífsins sem gerir störfin ekki eins eftirsóknarverð eða vantar fyrirmyndir í þjóðfélagið? Mörg öflug fyrirtæki hér heima og erlendis eru farin að sjá að því meiri sem fjölbreytileikinn er á milli starfsmanna því betri verður afkoman. Mörg hver eru núna farin að byggja upp með skipulögðum hætti framtíðarkvenfyrirmyndir á meðal síns starfsfólks og styðja við tengslanet sem eykur sýnileika kvenna með reynslu og þekkingu á leiðtogastörfum.“

Alcoa Fjarðaál undirritaði jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna 29. maí árið 2014 og má lesa um það hér.  

Hér má fræðast um jafnréttisstefnu Alcoa Fjarðáls. 

Í síðasta tölublaði Fjarðaálsfrétta er áhersla lögð á viðtöl við konur sem starfa í álverinu í tilefni þess að liðin eru 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt. 

 


Sjá einnig