Útskrift Stóriðjuskóla Rio Tinto Alcan

 

Þrettán nemendur útskrifuðust í dag, sex konur og sjö karlar. Þar með hafa 232 starfsmenn álversins í Straumsvík lokið námi við skólann.

Námið í Stóriðjuskólanum er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu og fæst því metið til eininga á stúdentsprófi. Grunnnám skólans eru þrjár annir, alls 344 kennslustundir. Um kennsluna sjá sérfræðingar hjá álverinu og kennarar frá Borgarholtsskóla. Kenndar eru bæði almennar námsgreinar sem og sértækir áfangar sem lúta að starfsemi álversins. Sú nýbreytni var á náminu að þessu sinni að í fyrsta sinn var sérstakur áfangi um jafnréttismál.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði útskriftarhópinn við athöfnina í dag sem og Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi. Rannveig sagði að Stóriðjuskólinn hefði fyrir löngu sannað gildi sitt og sæjust þess ótvíræð merki víða í rekstrinum. Framleiðsla í kerskálum hefði á liðnu ári í fyrsta sinn farið yfir 200 þúsund tonn og í steypuskála væru nú framleiddar flóknari og verðmætari vörur en áður; allt fæli þetta í sér margvíslegar áskoranir sem starfsfólk hefði mætt með aukinni þekkingu og færni.


Sjá einnig