Hversu mikið kaupa álverin af vörum og þjónustu?

Álver á Íslandi keyptu vörur og þjónustu fyrir um 61,3 milljarða árið 2022 af hundruðum innlendra fyrirtækja og er þá raforka undanskilin. Á síðustu árum hafa þessi viðskipti að jafnaði numið um 22 til 40 milljörðum á ári.

Í staðreyndaskjali Samáls fyrir árið 2012 var gerð úttekt á klasa fyrirtækja í kringum álverin og kom fram að álver á Íslandi greiddu rúmlega 60 þúsund reikninga fyrir innlendar vörur og þjónustu. Yfir 700 innlend fyrirtæki nutu góðs af því.

Liður í þessum viðskiptum eru fjárfestingar fyrir milljarða á hverju ári. Álver starfa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði þar sem stöðugt er fjárfest í skilvirkari framleiðsluaðferðum og tækniþróun til þess að viðhalda samkeppnishæfni. 

Hér á landi hafa álverin þrjú ráðist í viðamiklar fjárfestingar á síðasta áratug til að ná fram hagkvæmni í rekstri, auka framleiðslu með straumhækkun, þróa flóknari og verðmætari afurðir og leiða inn umbætur í öryggis- og umhverfismálum. Fjárfestingar eru eftirsóknarverðar í sjálfu sér, þær næra nýsköpun og ýta undir frekari verðmætasköpun.

Á árunum eftir hrun réðist álverið í Straumsvík í um 60 milljarða fjárfestingarverkefni í álverinu, þar sem íslensk fyrirtæki sáu um stærstan hluta framkvæmdanna, og árið 2015 lauk fimm ára fjárfestingarverkefni hjá Norðuráli upp á á annan tug milljarða, en liður í því var samningur við VHE um að sérhanna vélar og búnað fyrir skautsmiðju Norðuráls. Þá lýkur 17 milljarða fjárfestingarverkefni í nýjum steypuskála í vor sem gerir Norðuráli kleift að stíga í meira mæli inn í virðisaukandi framleiðslu. 

Sjá einnig