Hversu þungt vegur álið? – Ársfundur Samáls 2014

Hversu þungt vegur álið? – Ársfundur Samáls 2014

„Hversu þungt vegur ál?“ er yfirskrift ársfundar Samáls í Hörpu að morgni þriðjudags 20. maí. Á fundinum verður fjallað um horfur í áliðnaðinum og verðmætasköpun fyrir samfélagið allt.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar og viðskiptaráðherra ávarpar fundinn og Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan fjallar um uppbyggingu álklasans á Íslandi.

Þá ræðir Gerd Götz framkvæmdastjóri Evrópsku álsamtakanna um sóknarfæri fyrir Ísland, Kelly Driscoll framkvæmdastjóri á greiningarsviði CRU fjallar um horfur í áliðnaðinum á heimsvísu og loks lýsir Lars Wehmeier þróun á Mercedes-Benz C-Class og álbyltingu í bílaiðnaðinum. Wehmeier er framkvæmdastjóri vöruþróunar Mercedes-Benz C-Class hjá Daimler AG. Fundarstjóri er Dagmar Ýr Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.

Í samstarfi við Öskju verður nýja C-Class bifreiðin frá Benz forsýnd í Hörpu á ársfundi Samáls. Álnotkun í Benz C-Class hefur fimmfaldast úr 10% í 50% og fyrir vikið er bifreiðin 100 kílóum léttari en áður, brennir 20% minna eldsneyti og dregið hefur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á síðustu 20 árum hefur álnotkun að jafnaði þrefaldast í bifreiðum í Evrópu, gert er ráð fyrir að hún tvöfaldist til ársins 2025 og fyrir vikið er talað um álbyltingu í bílaiðnaðinum. Íslenskt ál er notað í Benz C-Class.


Sjá einnig