Villandi samanburður í skýrslu McKinsey

Samanburður í nýlegri skýrslu McKinsey á framleiðni raforkuframleiðslu hér á landi og í Noregi er afar villandi og beinlínis rangur að mati Samáls. Aðeins er stuðst við eitt ár í samanburðinum, árið 2010. Það ár var engan veginn lýsandi fyrir norskan raforkumarkað sökum óvenju hás raforkuverðs. Þetta kemur fram í svari Samáls við spurningu sem sett var fram á Spyr.is.

Spurningin var svohljóðandi: "Hverju svara álverin um að verð á orku sé of lágt eins og þarna kemur fram?"

 

Svar Samáls:

Í skýrslu sinni ber McKinsey  virðisauka í raforkusölu á Íslandi saman við Noreg. Annars vegar ber fyrirtækið saman virðisauka í raforkuframleiðslu á hverja selda teravattsstund (TWh) og hins vegar virðisauka á hvern starfsmann raforkufyrirtækjanna. Í stuttu máli kemst fyrirtækið að þeirri niðurstöðu að virðisauki á hvern starfsmann hér á landi sé um helmingur þess sem gerist í Noregi, og virðisauki á TWh sé um 44% af virðisauka Norðmanna.

Þessi samanburður er hins vegar afar villandi og beinlínis rangur. McKinsey notast í samanburði sínum aðeins við eitt ár, árið 2010. Svo stutt viðmiðunartímabil er engan vegin nægjanlegt ef draga á einhverjar marktækar ályktanir af niðurstöðum samanburðarins. Ennfremur voru aðstæður í Noregi þetta ár mjög óvenjulegar hvað raforkuverð varðar. Árið 2010 var raforkuverð í Noregi nefnilega í sögulegu hámarki vegna vatnsskorts þar í landi. Þetta leiddi til þess að meðalverð raforku hækkaði um 40% frá 2009 til 2010. Þessi þróun hefur síðan gengið til baka og gott betur, meðalverð það sem af er þessu ári er meðalverð um 43% lægra en 2010. Virðisauki á hverja TWh hefur því lækkað sem þessu nemur í Noregi. Munurinn á milli Íslands og Noregs í meðalári er því langt frá því að vera svo mikill sem McKinsey leiðir fram í skýrslu sinni.
Í öðru lagi er raforkusala Norðmanna allt öðru vísi samsett en hér á landi. Vægi raforkusölu til almennings er mun meira, enda íbúafjöldi Noregs um 15-faldur íbúafjöldi Íslands. Almennt er raforkuverð til almennings og smærri orkukaupenda mun hærra en raforkuverð til orkufreks iðnaðar. Það á við í Noregi og einnig hér á landi, en í minni mæli þó. Af þessum sökum má vænta þess að virðisauki sé hærri á hverja selda TWh í Noregi en hér á landi, en McKinsey gerir enga tilraun til að greina á milli mismunar í virðisauka vegna vægis almennra notenda í raforkusölu annars vegar og verðlagningar raforku til stórnotenda hins vegar. Nærri 70% af raforkusölu í Noregi fer til heimila og almenns iðnaðar en um 30% til stóriðju. Hér á landi er þetta hlutfall öfugt. Því er viðbúið að meðalverð sé talsvert hærra í Noregi en hér á landi.

Hér á landi hefur munurinn á raforkuverði til almennings og stóriðju raunar alla tíð verið mun minni en gengur og gerist annars staðar. Því má segja að við höfum tekið hluta virðisaukans til okkar í formi lægra raforkuverðs.

Fleiri þætti mætti nefna, svo sem ólíka gengisþróun íslensku krónunnar og þeirrar norsku.  Þannig var íslenska krónan liðlega helmingi veikari gagnvart þeirri norsku árið 2010 en að meðaltali undangenginn áratug. Þetta skekkir allan samanburð umtalsvert.

Þá er ekki horft til virðisauka af orkufrekum iðnaði hér á landi, sem er umtalsverður. Þar er ekki einvörðungu horft til reksturs álvera og annars orkufreks iðnaðar, heldur einnig þeirrar umfangsmiklu starfsemi sem byggst hefur upp í kringum þennan iðnað. Þegar rætt er um möguleika okkar á auknum virðisauka með raforkuútflutningi um sæstreng, líkt og gert er í skýrslu McKinsey, er mikilvægt að horfa til þess virðisauka sem myndi glatast hér á landi á móti. Þannig sýnir nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar að heildarvirðisauki af orkufrekum iðnaði og raforkuframleiðslu til hans nemur um 7% af landsframleiðslu og hefur farið hækkandi. Um 60-70% þessa virðisauka er tilkominn vegna starfsemi orkufreks iðnaðar og tengdrar þjónustu, annarrar en raforkusölu.

Skýrsla McKinsey gefur því engan veginn rétta né samanburðarhæfa mynd á milli þessara tveggja landa hvað varðar virðisauka af raforkusölu.

Raforkusala til orkufreks iðnaðar er háð alþjóðlegri samkeppni. Þrátt fyrir áberandi umræðu um að hér væri raforka seld á einhverjum afslætti til orkufreks iðnaðar er ekkert sem bendir til annars en að samningar um verð hafi verið í fullkomnu samræmi við verð á alþjóðamörkuðum hverju sinni. Benda má á ágæta grein Friðriks Sophussonar, fyrrum forstjóra Landsvirkjunar, sem birtist í Fréttablaðinu nýverið þessu til stuðnings. Grein Friðriks má lesa hér. 

 


Sjá einnig