Ísland krúnudjásnið í jafnréttismálum

„Það er siðferðis­lega rétt að ráða fjöl­breytt starfs­fólk en það er líka bara fjári góð viðskipta­ákvörðun,“ seg­ir Gena Lovett, jafn­rétt­is­stýra hjá höfuðstöðvum Alcoa í New York, í greinargóðu viðtali sem Sunna Sæmundsdóttir tók við hana fyrir Mbl.is og lesa má hér. Lovett hef­ur klifið upp met­orðastig­ann inn­an fyr­ir­tæk­is­ins á síðustu árum og oft verið út­nefnd sem ein þeirra kvenna sem „vert er að fylgj­ast með“ í viðskipt­um.

Lovett talaði á ráðstefnu um stöðu og þróun jafn­rétt­is á vinnu­markaði und­ir yf­ir­skrift­inni  „Aukið jafn­rétti - Auk­in hag­sæld sem UN Women á Íslandi, Festa og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins efndu til á Hilt­on Reykja­vík Nordica í vikunni.

Þar var fjallað um mik­il­vægi þess að fyr­ir­tæki setji jafn­rétt­is­mál á odd­inn út frá viðskipta­leg­um for­send­um og sam­fé­lags­ábyrgð.

Á ráðstefn­unni und­ir­ritaði Stjórn­ar­ráð Íslands yf­ir­lýs­ingu um að fylgja Jafn­rétt­is­sátt­mála stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna um kynja­jafn­rétti og vald­efl­ingu kvenna (UN Women). Er þetta í fyrsta sinn sem öll ráðuneyti eins rík­is und­ir­rita þenn­an sátt­mála í sam­ein­ingu. 

Lovett er með stjórn­end­ur hverra ein­inga inn­an Alcoa sam­stæðunn­ar í stuttri ól þegar að jafn­rétt­is­mál­um kem­ur og þarf hver fram­kvæmda­stjóri á reglu­leg­um fund­um að til­kynna henni um ár­ang­ur sinn í jafn­rétt­is­mál­um.

Með þessu seg­ir hún tryggt að jafn­rétt­isáætl­un Alcoa verði fylgt. 

Í viðtalinu á Mbl.is er ennfremur haft eftir Lovett að jafn­rétt­is­stefnu þurfi að flétta í innviði fyr­ir­tækja og að nauðsyn­legt sé að all­ir séu sam­stíga og vinni með jafn­rétti að leiðarljósi. „Stríðið um hæfi­leika­ríkt starfs­fólk er oft óvægið. Stjórn­end­ur verða að ná í það allra besta og það verður að leita á öll­um stöðum. Við þurf­um fjöl­breytni til þess að viðhalda sam­keppn­is­stöðu okk­ar og starfs­um­hverfið þarf að end­ur­spegla fjöl­breytni sam­fé­lags­ins,“ seg­ir hún.

„Við þurft­um að setja okk­ur mark­mið um að setja kon­ur í leiðtoga­hlut­verk inn­an fyr­ir­tæk­is­ins. Þetta ger­um við bæði vegna þess að kon­ur eru al­veg jafn hæf­ar til þess og karl­menn en einnig vegna þess að mik­il­vægt er að skapa sterk­ar fyr­ir­mynd­ir jafnt fyr­ir kon­ur sem karla.“

Nauðsyn­legt að huga að frá upp­hafi

Hún seg­ir hæfi­leika­ríkt starfs­fólk verða til með þjálf­un og kennslu og nauðsyn­legt sé því frá upp­hafi að taka inn jafn marg­ar kon­ur og karl­menn. Ef af fimm nýj­um starfs­mönn­um er ein­ung­is ein kona er strax í upp­hafi búið að tak­marka mögu­leik­ann á því að kona verði val­in til frek­ari ábyrgðar inn­an fyr­ir­tæk­is­ins þar sem fleiri karl­menn geta setið eft­ir þegar farið er að kemba í gegn­um hóp­inn. Þá seg­ir hún seg­ir áfram­hald­andi stuðning vera nauðsyn­leg­an. „Það er ekki nóg að vera boðið á dans­leik held­ur þarf þér einnig að vera boðið upp í dans þegar þangað er komið.“

Ísland er krúnu­djásnið

Starfstöð Alcoa á Íslandi er krúnu­djásn fyr­ir­tæk­is­ins í jafn­rétt­is­mál­um að sögn Lovett. „Við viss­um frá upp­hafi að við vild­um sér­stak­lega ná til kvenna og fá þær til fyr­ir­tæk­is­ins.“


Sjá einnig