Léttum byrðarnar – Vegvísir að minni losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu 2050

Í mars 2011 gaf Evrópusambandið út „Vegvísi að samkeppnishæfu, kolefnislágu hagkerfi 2050.“ Af því tilefni gáfu Evrópusamtök álframleiðenda út sambærilegan vegvísi fyrir áliðnað er ber nafnið „Léttum byrðarnar“. Samál hefur nú gefið þennan bækling út hér á landi. Þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um umhverfisáhrif áliðnaðar og viðleitni iðnaðarins til stöðugra umbóta í þeim efnum.

Verulega hefur dregið úr kolefnislosun í áliðnaði á liðnum árum. Hér á landi hefur losun á hvert framleitt tonn minnkað um 75% frá 1990 og í evrópskum áliðnaði hefur losun á hvert tonn dregist saman um 50% á sama tímabili.

Stöðugt er stefnt að betri árangri í þessum efnum, en góður árangur á liðnum árum setur íslenskum áliðnaði þó vissulega nokkrar skorður þar sem losun vegna álframleiðslu hér á landi liggur nærri þeim mörkum sem hægt er að ná við núverandi tæknistig álframleiðslu. Meðallosun á hvert framleitt tonn hér á landi var um 20% lægra að meðaltali í Evrópu, sé aðeins horft til beinnar losunar við framleiðslu. Umtalsverð losun verður hins vegar einnig við framleiðslu raforku í Evrópu, sem ekki er til að dreifa hér á landi. Að teknu tilliti til þessa nemur heildarlosun á hvert framleitt tonn hér á landi einungis um fjórðungi af heildarlosun á hvert framleitt áltonn í Evrópu.

Í þessari umræðu gleymist hins vegar gjarnan að horfa til heildaráhrifa af framleiðslu og notkun áls. Vissulega fylgir álframleiðslu nokkur losun gróðurhúsalofttegunda. Notkun áls í ýmsum vörum leiðir hins vegar af sér umtalsverðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, samanborið við önnur efni. Þannig leiðir aukin notkun áls í bílaiðnaði til þess að bílar verða sífellt léttar og eyða fyrir vikið minna eldsneyti. Samkvæmt athugun Evrópusamtaka álframleiðenda leiðir notkun áls í farartækjum í Evrópu til sparnaðar í losun upp á 70 milljónir tonna kolefnis á ári. Þessi sparnaður er meiri en sem nemur heildarlosun evrópsks áliðnaðar á ári hverju.

Um þriðjungur af álframleiðslu í Evrópu er notuð í samgöngutæki. Verulegur sparnaður í losun hlýst hins vegar einnig af notkun áls í aðrar vörur, svo sem matvælaumbúðir – lengri endingartími og minni sóun matvæla; sem og í byggingarefni – bætt orkunýting og þar með minni losun vegna orkuframleiðslu.

Léttum byrðarnar – Vegvísir að minni losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu 2050

Sjá einnig