Mikil gróska í kringum álverin

„Öfugt við það sem sumir halda eru íslensk álfyrirtæki ekki þrjú, heldur skipta þau hundruðum,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda í viðtali í Frjálsri verslun.

„Það sést vel á því að árið 2012 keyptu íslensku álverin vörur og þjónustu frá 700 innlendum fyrirtækjum fyrir 40 milljarða og eru þá raforkukaup undanskilin.“ Samál var stofnað 7. júlí árið 2010 af Rio Tinto Alcan í Straumsvík, Norðuáli á Grundartanga og Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Markmið samtakanna er að vinna að hagsmunum og framþróun íslensks áliðnaðar og efla upplýsingastreymi og fræðslu um áliðnaðinn.

Pétur segir mikla gróska í þjónustugeiranum í kringum álverin, byggst hafi upp þekking og sérhæfing og sum fyrirtækjanna séu farin að þjónusta álver víða um heim. „Ég hóf störf hjá Samáli haustið 2013 og tók við af Þorsteini Víglundssyni, sem hafði unnið mikið brautryðjendastarf. Fljótlega setti ég markið á að stefna fólki og fyrirtækjum í áliðnaði saman í álklasa, þar sem lögð yrði áhersla á að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni iðnaðarins í heild.“

Uppbygging álklasans

Álklasinn var einn af níu klösum sem fengu bronsmerkingu Evrópuskrifstofu um klasagreiningu í október 2013 og í apríl 2014 var tveggja daga stefnumótunarfundur álklasans haldinn í Borgarnesi í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samál. Fundinn sóttu um 40 fyrirtæki og stofnanir og var dregin upp mynd af óskalandslaginu árið 2020. „Við héldum síðan stefnumót í haust, þar sem fjallað var um nýsköpunarumhverfi í áliðnaði og átján frumkvöðlar fengu tækifæri til að kynna hugmyndir sínar,“ segir Pétur. „Í kjölfarið voru frumkvöðlarnir til viðtals um hugmyndir sínar og fulltrúar hátt í 80 fyrirtækja og stofnana fóru á milli kennslustofa og ræddu við þá. Þetta heppnaðist afar vel og margar af þessum hugmyndum hafa verið þróaðar áfram með góðum árangri.“

Eitt mála í forgrunni hjá álklasanum hefur verið að efla rannsóknir og þróun. Er horft til samstarfs við Nýsköpunarmiðstöð, háskólana og ýmsar menntastofnanir í því samhengi. Nýverið var komið á fót Þróunarsetri í efnistækni við Nýsköpunarmiðstöð sem Guðbjörg Óskarsdóttir er verkefnastjóri yfir og er meðal annars horft til þess að nýta allan úrgang sem til fellur í framleiðsluferlinu í álverunum og breyta honum í hráefni. „Sú vinna er raunar þegar langt á veg komin og nægir í því sambandi að nefna að hjá Alcoa Fjarðaáli eru 99,7% allra aukaafurða frá starfseminni endurunnin,“ segir Pétur.

Þjóðhagslegt mikilvægi áliðnaðar

Í máli Péturs kemur fram að áliðnaðurinn sé þjóðhagslega mikilvægur fyrir Íslendinga og tala þar tölurnar sínu máli. „Útflutningsverðmæti íslenskrar álframleiðslu námu í fyrr 227 milljörðum og af því verða hátt í 100 milljarðar eftir á Íslandi í formi kaupa á raforku, vörum og þjónustu og síðan launa og opinberra gjalda. Þetta eru það háar fjárhæðir að erfitt er að setja þær í samhengi sem fólk áttar sig á, en ég bendi þó að Landspítalinn er stærsti liðurinn á fjárlögum þessa árs hjá ríkinu og námu framlög til hans rúmum 40 milljörðum.“

Í úttekt Hagfræðistofnunar á beinu og óbeinu framlagi áliðnaðar til landsframleiðslu sem kynnt var í febrúar 2012 kom fram að framlag álframleiðslu nam um 6,8% af landsframleiðslunni, en þar kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að orkuáliðnaður sé einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Um 2.000 manns vinna á álverssvæðunum á hverjum tíma, en samkvæmt skýrslunni má gera ráð fyrir að störfin séu um 5.000 þegar horft er til beinna og óbeinna starfa og er þá ekki horft til eftirspurnaráhrifa.

Góð áhrif á uppbyggingu byggðalaga

„Það er mikilvægt að gleyma ekki þeim þætti sem lýtur að mikilvægi áliðnaðarins sem grunns fyrir nýsköpun og þróun í atvinnulífinu,“ segir Pétur. „Ég get nefnt dæmi úr nýlegri fjallaskíðaferð sem ég fór í til Eskifjarðar. Við ferðuðumst saman góður hópur og gistum á Mjóeyri hjá hjónunum Sævari Guðjónssyni og Berglindi Steinu Ingvarsdóttur, sem hafa byggt þar upp metnaðarfulla ferðaþjónustu – með gistingu, veitingastað og skíðaferðum í fjöllunum í kring.“

 Þau sögðu mér að það hefði hjálpað þeim í uppbyggingarstarfinu á sínum tíma að Alcoa Fjarðaál, sem einnig er í Fjarðabyggð, leigði af þeim gistiaðstöðu yfir vetratímann. Það færði stoðir undir reksturinn og kom þeim yfir erfiðasta hjallann, ásamt auðvitað þeirra frumkvæði og dugnaði.“

Pétur segir þetta ekki eina dæmið úr ferðinni sem sýndi hversu mikilvægt væri að stoðir atvinnulífsins væru fjölbreyttar. „Ég heimsótti einnig útgerðina Eskju hf. á Eskifirði og hafði áður komið í Síldarvinnsluna á Neskaupsstað,“ segir hann.

„Það er hreint ótrúlegt að koma inn í þessi fyrirtæki og sjá þá miklu tæknibyltingu og hagræðingu sem þar hefur átt sér stað. Það slær mann strax hversu sjálfvirknin er orðin mikil. Bæði þessi rótgrónu fyrirtæki gegndu áður þeirri samfélagsábyrgðar að sjá fólki í byggðarlaginu fyrir vinnu og gerðu það með miklum sóma. Nú þegar álverið á Reyðarfirði bættist við, sem sækist eftir öflugu fólki í vinnu, þá gátu þessi fyrirtæki ráðist í mikla tæknivæðingu og siglt inn í tuttugustu og fyrstu öldina án þess að hafa áhyggjur af því að það ylli atvinnuleysi á svæðinu.“

Eitt útilokar ekki annað

Þannig styðja ólíkar greinar hver aðra og þjóðfélagið nýtur góðs af, að sögn Péturs. „Þetta vill gleymast í umræðunni. Fólki hættir til að draga þá ályktun að eitt útiloki annað, en það er öðru nær eins og þetta dæmi frá Reyðarfirði sýnir vel og það mætti eins telja til dæmi frá öðrum landshlutum. Ef við horfum á tvo síðustu áratugi á Íslandi, þá hefur orðið gríðarleg uppbygging í ferðaþjónustunni á sama tíma og byggst hefur upp öflugur orkuiðnaður og sjávarútvegurinn hefur styrkst verulega. Það varðar miklu að innviðirnir séu traustir allt árið um kring. Það er grunnur að frekari uppbyggingu, nýsköpun og fjölbreyttum tækifærum fyrir ungt fólk hér á landi.“

Hann segir stöðugleika hafa aukist hér á landi með öflugum orkuiðnaði, vaxandi ferðaþjónustu og fjölþættari sjávarútvegi. „Afkoma þjóðarinnar er ekki lengur bundin þorskverði heldur spilar fleira inn í. Ég nefni sem dæmi mikilvægi áliðnaðar árin eftir bankahrunið. Almennt var lítið fjárfestingar í íslensku atvinnulífi og erlendar fjárfestingar hverfandi. Á þeim viðkvæma tíma fjárfesti áliðnaðurinn hinsvegar fyrir hátt í 90 milljarða. Stærsta fjárfestingarverkefnið var í Straumsvík, nam um 60 milljörðum og var að mestu fjármagnað með 10 ára uppsöfnuðum hagnaði fyrirtækisins. Nýverið kynnti svo Norðurál fimm ára fjárfestingarverkefni upp á á annan tug milljarða sem felst í aukinni framleiðni, bættu rekstraröryggi og aukningu framleiðslu um allt að 50 þúsund tonn á ári. Og það segir sig sjálft að eftir því sem áliðnaður skýtur sterkari rótum hér landi, þeim mun meiri verður þekking og sérhæfing íslensks iðnaðar í kringum þá starfsemi.“

Meðfylgjandi rammar fylgja viðtalinu:

Verðlaunagripur úr áldósum!

Garðar Eyjólfsson, lektor við vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands, hannaði verðlaunagripinn fyrir Söngkeppni framhaldskólanna 2015. Garðar fór á milli menntaskólanna á höfuðborgarsvæðinu og safnaði áldósum. Hann fór með þær í Málmsteypuna Hellu í Hafnarfirði og þar var verðlaunagripurinn smíðaður – úr endurunnum áldósum sem framhaldsskólanemar höfðu handleikið og drukkið úr. „Ál má endurvinna nær endalaust, enda er um 75% af öllu áli sem framleitt hefur  verið í heiminum enn í notkun og hátt í 90% af öllum drykkjardósum úr áli á Íslandi eru endurunnar,“ segir Pétur. „Það segir sína sögu að um 60 dagar geta liðið frá því drykkjardós úr áli er skilað til endurvinnslu þar til hún ratar aftur í búðarhillurnar.“

Léttir fólki sporið

Ál er notað í stórum hlua stoðtækjanna sem framleidd eru hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri. „Málmurinn, sem er sterkur og léttur, nýtist vel – og léttir fólki sporið,“ segir Pétur. „Afurðirnar eru fjölbreyttar og það er mikil upplifun að koma í höfuðstöðvarnar að Grjóthálsi og skoða framleiðslulínuna þar. Mér fannst til dæmis gaman að sjá þessar stóru vélar, sem smíðaðar hafa verið utan um framleiðslu á pínulitlum skrúfum og boltum úr áli.“

Pönnukökupönnur

Pétur Blöndal segist hafa átt ánægjulega heimsókn á dögunum í Málmsteypuna Hellu í Hafnarfirði, sem er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og framleiðir að mestu úr áli. „Hella hóf starfsemi sína árið 1949 í hlöðu í Reykjavík og varð að afla allra tækja og hráefnis hér á landi vegna haftanna og var ál að mestu sótt í gömul flugvélaflök sem sótt voru á fjöll. Enn þann dag í dag er álið að miklu leyti endurunnið, en einnig er það keypt frá Norðuráli. Framleiðslan er fjölbreytt, allt frá pönnukökupönnum og samlokugrilli til vegvísa og tækja og tóla fyrir áliðnað og sjávarútveg.“

Íslenskt ál á Suðurpólinn

Íslenskt ál kemur víða við. Fyrirtækið Arctic Trucks hefur útbúið sérsmíðaða jeppa til ferða á Suðurpólinn og í þeim eru upphækkunarsett úr áli og styrktar álfelgur frá Málmsteypunni Hellu. „Verðmætasköpunin í kringum álið er sífellt að aukast og tækifærin eru víða til staðar,“ segir Pétur. „Ef horft er til bílaflotans þá eykst álnotkun ár frá ári og það varð bylting í fyrra með Ford F-150 sem er vinsælasti bíllinn í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir aukinni álnotkun eru kröfur stjórnvalda um að draga úr eldsneytisbrennslu og losun gróðurhúsalofttegunda, en ál svarar því kalli þar sem það léttir bílana verulega. 95% af öllu áli sem fer til bílaframleiðslu er endurunnið.“  

Meðfylgjandi punktar fylgja viðtalinu:

* Flestir nota ál oft á dag, jafnvel án þess að taka eftir því, enda er það m.a. notað í geisladiska, tölvur, spegla, reiðhjól, potta og pönnur, steinull, tannkrem (súrál), skósvertu, húsgögn, heimilistæki og umbúðir. Ál er einnig notað í bíla og flugvélar, lestarvagna og í yfirbyggingar skipa, og í margvíslegar umbúðir svo sem um gosdrykki, lyf og fleira. Ál er mikið notað í byggingariðnaði s.s. í þök, klæðningar, stiga, handrið, gluggakarma, hurðir og klæðningar innanhúss. Þá er ál notað í ýmsan búnað í fjarskiptum og raftækni.

* Allt ál er endurvinnanlegt.

* Stór hluti á álvinnslu í heiminum er endurvinnsla á eldra áli. Það er afar auðvelt að endurvinna ál vegna lágs bræðslumarks. Aðeins þarf 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess. Um 20 milljón tonn af áli eru endurunnin á ári hverju. Áætlað er að um 2/3 hlutar alls áls sem framleitt hefur verið í heiminum frá 1880 sé enn í notkun.

* Ísland er með tæp 2% af heimsframleiðslu á áli ár hvert, en hún fór í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna í fyrra. Aðeins Noregur framleiðir meira ál í Evrópu. Ísland er því í lykilstöðu út frá nálægð við markaði.

* Álverin þrjú kaupa um 75% af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi.

Sjá einnig