Til stendur að ráðast í endurvinnsluátak sprittkerta, en þar er Samál í samstarfi við endurvinnslufy…
Til stendur að ráðast í endurvinnsluátak sprittkerta, en þar er Samál í samstarfi við endurvinnslufyrirtæki í landinu, að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls.

Mikill ávinningur í endurvinnslu áls

Yfir 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið er enn í notkun. „Einn af höfuðkostum áls sem efniviðs í tilveruna er að það má endurvinna það aftur og aftur, án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls í viðtali í Sámi fóstra, fréttablaði um málefni landsbyggðarinnar sem kom út í dag.

Í umfjölluninni segir ennfremur: 

Bílaflotinn léttist með aukinni álnotkun

Það átta sig ekki allir á hversu stóru hlutverki ál gegnir í okkar daglegu tilveru. En það kemur víða við sögu. Ál í umbúðum eykur endingartíma matvæla og dregur þannig úr sóun. Það leiðir vel rafmagn og skiptir því máli í þeim orkuskiptum sem eiga sér stað í heiminum, en mikil áhersla er lögð á uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu og tengingu þeirra við raforkunetið. Ál einangrar vel og með notkun á því í klæðningar má draga úr orkunotkun bygginga um 50%. Svo er það fallegur málmur og nýtur sín vel í vörum sem eru í fararbroddi hönnunar, til dæmis iphone og hljómtækjum frá Bang & Olufsen. 

Er vaxandi notkun áls við bílaframleiðslu helsta ástæða aukinnnar nokunar?

,,Það er einmitt ástæðan. Vaxandi eftirspurn áls í bílaframleiðslu má rekja til þess að þannig koma bílaframleiðendur til móts við kröfu stjórnvalda um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þar nýtast kostir áls sem léttsmálms en um leið sterks málms. Eftir því sem hlutfall þess er hærra í bifreiðum og öðrum samgöngutækjum, þeim mun léttari eru þær, brenna minna eldsneyti og losa minna af gróðurhúsalofttegundum. Meiri álnotkun er því ein helsta leið stjórnvalda á Vesturlöndum til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið í loftslagssamningum. Álið hefur líka hlutverki að gegna í rafbílavæðingunni, því eftir því sem bifreiðarnar eru léttari, þeim mun lengra komast þær á rafhlöðunum. Þess vegna er álið mikið nýtt hjá mörgum rafbílaframleiðendum á borð við Teslu.“

Endurvinnsla áls varðar miklu

,,Hér á landi koma mörg endurvinnslufyrirtæki að flokkun og söfnun áls. Og það er mjög gaman að fara yfir sviðið og kynna sér þá starfsemi. Þetta eru fyrirtæki á borð við Sorpu, Furu, Hringrás, Gámafélagið, Gámaþjónustuna og Endurvinnsluna. Þá endurvinnur Alur álgjallið sem til fellur í framleiðsluferli álvera. Það er stundum talað um ál sem grænan málm vegna endurvinnslueiginleika þess. Í raun skapar það endurvinnslufyrirtækjum um alla Evrópu rekstrargrundvöll,“ segir Pétur.

Til endurvinnslu áls þarf einungis um 5% þeirrar orku sem fór í að framleiða það upphaflega. Það skapar því mikil verðmæti að endurvinna það. Og í raun er það orkubanki, sem nýtist komandi kynslóðum aftur og aftur. En það er þó ekki síður mikilvægt, að með orkusparnaðinum við endurvinnslu áls er dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda enda er það orkan sem losar mest við álframleiðslu í heiminum.

„Ef horft er til Kína sem framleiðir yfir helming alls frumframleidds áls í heiminum, þá eru um 90% álframleiðslunnar þar í landi drifin af kolum, og það er mikið áhyggjuefni. Losun gróðurhúsalofttegunda við koladrifna álframleiðslu er um tífalt meiri en losun hér á landi með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Það skiptir því gríðarlegu miklu máli í stóra samhenginu að endurvinna álið, en einnig að nýta til framleiðslunnar sjálfbæra og endurnýjanlega orku, og þar leggur Ísland sitt lóð á vogarskálarnar.“

Er vaxandi skilningur á endurvinnslu hérlendis?

,,Þau fyrirtæki sem standa að endurvinnslu hér á landi leggja mikið upp úr endurvinnslu áls og þar stöndum við framarlega í heiminum. Á næstu dögum stendur til að hleypa af stokkunum átaki sem felst í söfnun áls sem til fellur á heimilum. Ef við varðveitum álið, flokkum það og skilum til endurvinnslu, þá má nota það aftur og aftur. Við vekjum athygli á því með þessu átaki. Það skiptir máli að halda utan um verðmætin og draga úr sóun. Það þarf til dæmis einungis þrjá bikara utan af sprittkertum til framleiðslu á drykkjardós úr áli og þúsund til að framleiða reiðhjól.

Mesta athyglin hjá heimilunum hefur hingað til verið á drykkjardósum og þar hefur okkur tekist vel til. Íslendingar safna um 94% allra drykkjardósa úr áli og þumalputtareglan er sú að frá því drukkið er úr dósunum líða um sex vikur þar til þær rata aftur upp í hillu í búðunum.“

Átakið stendur yfir í desember og janúar og getur almenningur tekið þátt með því að skila bikurum af sprittkertum í móttökustöðvar eða í grænu tunnurnar, sem Gámaþjónustan og Gámafélagið bjóða heimilum upp á. „Það verður efnt til leiks á samfélagsmiðlum, þar sem almenningi gefst kostur á að senda inn myndir af kertaskreytingum,“ segir Pétur. „Það verður áreiðanlega jólalegt um að litast á íslenskum heimilum eins og endranær í skammdeginu, enda skilst mér að kerti séu hvergi eins mikið notuð og á Norðurlöndum. Það er svo um að gera fyrir fólk að skila inn vaxinu líka til Endurvinnslunnar, því Plastiðjan Bjarg safnar vaxinu og nýtir það í framleiðslu á útikertum.“

Verður Nýsköpunarmót Álklasans á þessum vetri?

,,Nýsköpuarmót Álklasans tókst vel í fyrra og við munum auðvitað endurtaka leikinn, enda stendur til að þetta verði árlegur viðburður. Nýsköpunarmóti verður haldið í Háskólanum í Reykjavík 23. febrúar nk., en að því standa auk Álklasans og HR, Háskóli Íslands, Samtök iðnaðarins og Samál. Viðburðurinn er opinn öllum og þar gefst tækifæri til að kynnast gróskunni í íslenskum áliðnaði, en þar koma hundruð íslenskra fyrirtækja við sögu.“

Í fyrra hleyptum við af stokkunum hugmyndagátt sem nemendur geta sótt í þegar kemur að lokaverkefnum.

,,Þá munum við styrkja nemendur sem eru að vinna að spennandi verkefnum. Þarna verða skemmtileg erindi, bæði framsögur frá fyrirtækjum um nýsköpun og þróun innan þeirra og eins örkynningar frá nemendum og sprotafyrirtækjum sem fara yfir það sem er efst á baugi hjá þeim,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

 


Sjá einnig