Nýr Range Rover nær hálfu tonni léttari vegna aukinnar álnotkunar

Nýr Range Rover verður kynntur til sögunnar á bílasýningunni í París í næsta mánuði. Mikil áhersla hefur verið lögð á að létta bílinn og gera hann sparneytnari með góðum árangri. Yfirbygging bílsins verður nær öll úr áli auk þess sem álið verður einnig áberandi í undirvagni hans. Leiðir þetta til þess að hinn nýi Range Rover verður nær fimmtungi léttari en fyrirrennari hans, eða sem nemur 420 kílóum.

Fyrir vikið verður nýi Range Roverinn mun sparneytnari en núverandi útgáfa, en í frétt breska bílablaðsins AutoExpress, kemur fram eldsneytiseyðsla verði um fjórðungi minni í nýja bílnum og CO2 losun minni en 200 g/km.

Þessi mikla aukning á álnoktun í nýjum Range Rover er í takt við þá þróun sem átt hefur sér stað í heiminum á undanförnum árum.  Aukin áhersla hefur verið lögð á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá bílaframleiðendum, og hefur helst verið horft til þess að létta bifreiðar og bæta eldsneytisnýtingu véla. Hvert kíló af áli sem notað er í bifreið í stað stáls, léttir hana um eitt kíló. Fyrir vikið hefur álnotkun í smíði nýrra bifreiða aukist jafnt og þétt á liðnum árum og nemur nú að meðaltali um 150 kg. í hverjum nýjum bíl. Gert er ráð fyrir að álnotkun verði að meðaltali orðin um 250 kg. í hverjum nýjum bíl árið 2025.

Þess má geta að álnotkun í evrópskum bílaiðnaði í dag sparar meiri losun gróðurhúsalofttegunda en sem nemur heildarlosun evrópsks áliðnaðar á ári hverju. Þannig leikur aukin álnotkun stórt hlutverk í baráttunni við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Meðfylgjandi er slóð á frétt AutoExpress:

http://www.autoexpress.co.uk/land-rover/range-rover/59726/new-range-rover-revealed

Sjá einnig