Nýr rennilegri Samsung snjallsími verður sterkari vegna hágæða áls frá Alcoa

Í dag tilkynnti Alcoa að fyrirtækið muni sjá Samsung fyrir þolsterku hágæða áli sem er sérframleitt fyrir flugiðnaðinn, til þess að nota í nýjustu snjallsímana, Galaxy S6 og S6 edge.

Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðlegi raftækjarisinn Samsung notar álgrind í flaggskipið sitt, Galaxy S snjallsímann. Áltegundin sem Alcoa selur Samsung kallast 6013 Alcoa Power Plate™ en hún var sérstaklega hönnuð fyrir flugvélar. Þessi tegund er 70 prósent sterkari en hefðbundið ál sem er notað í svipuð tæki og gerir það mögulegt að hafa símann þynnri, léttari og rennilegri.

„Þegar við hönnuðum Galaxy S6 og S6 edge, sem eru með málmgrind, sáum við að nauðsynlegt yrði að finna sterkan en um leið léttan málm sem gerði okkur kleift að framleiða síma sem viðskiptavinir okkar væru spenntir fyrir,“ segir DJ Koh, forstjóri farsímasviðs Samsung Electronics. „Power Plate álið er fullkomið til þess að búa til símann sem viðskiptavinir okkar þrá að eignast: hann er þynnri, léttari og sterkari.“
 
Reiknað er með því að snjallsímum með málmgrind muni fjölga um næstum 250 prósent milli áranna 2014 og 2016, og þar með eykst eftirspurnin eftir áli til að verja símana. Það voru tæknisérfræðingar í nýsköpunarmiðstöð Alcoa í Pittsburgh í Pennsylvaníu sem hönnuðu Power Plate álið fyrir flugsamgönguiðnaðinn en þessi tegund býr yfir miklum styrk og tæringarþoli enda sérstaklega ætluð fyrir vörur með framúrskarandi endingu.
 
„Við höfum þaulprófað Power Plate álið okkar í flugvélum, bílum og hergagnaframleiðslu og sannað að það geti þolað það mikla álag og hnjask sem farsímar verða fyrir,“ segir Ray Kilmer, aðstoðarforstjóri og yfirmaður tæknimála hjá Alcoa. „Aðalhönnuðir Samsung vildu búa til þynnri og rennilegri síma án þess að draga úr endingareiginleikum hans. Í samvinnu við nýsköpunarsérfræðinga Samsung tókst málmfræðingum Alcoa að finna lausn sem veitir Galaxy-símanum eina sterkustu og endingarbestu álgrindina sem fyrirfinnst á markaðinum í dag.“
 
Samsung Galaxy S6 snjallsíma með Alcoa Power Plate er nú hægt að kaupa um allan heim.  Snjallsímarnir Samsung Galaxy S6 og S6 edge eru hannaðir úr málmi og gleri og veita nýja innsýn í hvað framtíðin mun bjóða upp á, með tímalausri hönnun og þróaðri tækni.
 
Tæknileg nýsköpun Alcoa í raftækjaiðnaðinum er í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins að styrkja stöðu sína á markaði fyrir virðisaukandi vörur. Meðal annarra lausna sem Alcoa hefur í boði fyrir raftækjaiðnaðinn er ProStrength™, en það er sérlausn fyrir yfirborðsfrágang sem felur einnig í sér notkun flugvélaiðnaðaráls fyrir þynnri, léttari og sterkari farandtæki.
 
Sjá fréttatilkynningu frá Alcoa Inc. í heild sinni hér.


Sjá einnig