Sprotafyrirtæki stofnað um álmæli

"Við vildum ekki lengur selja tíma okkar heldur skapa virði og búa eitthvað til," segir Karl Ágúst Matthíasson frumkvöðull og einn þriggja stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins DT Equipments (DTE) í samtali við Viðskiptablaðið í dag. "Niðurstaðan varð tæki sem mælir ál í kerjum álvera í rauntíma."

Félagið er stofnað af Karli Ágústi Matthíassyni, Sveini Hinriki Guðmundssyni og Eggerti Valmundarsyni, en þeir hafa unnið saman með HRV Engineering, ráðgjafarfyrirtæki verkfræðistofanna Verkís og Mannvits, sem hefur sérhæft sig í þjónustu við áliðnaðinn. Þeir munu vinna með verkfræðingum í Háskólanum í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands og eru með aðstöðu þar.

DTE fékk nýverið úthlutað 15 milljóna króna styrk næstu þrjú árin úr Tækniþróunarsjóði RANNÍS. Þá tekur fyrirtækið þátt í viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavík í næstu viku en þar mætast frumkvöðlar og fjárfestar. DTE var þar eitt af sjö fyrirtækjum sem náðu í gegn af 80 umsækjendum. DTE hefur sömuleiðis verið valið til þátttöku í norræna frumkvöðlaverkefninu Startup Sauna.

DTE hefur gert samstarfssamning við Norðurál vegna þróunar á greiningarbúnaðinum. Í Viðskiptablaðinu kemur jafnframt fram að fyrirtækið hafi landað sínum fyrsta samningi. Hann felur í sér afhendingu raðnúmerastimpils fyrir forskaut fyrir verksmiðju í eigu Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, í Vlissingen í Hollandi.

Sjá einnig