Það munar um minna

Í Kastljósi miðvikudaginn 28. maí sl. var fjallað um starfshætti Alcoa á Íslandi. Alvarlegar ásakanir voru bornar á fyrirtækið, sem margar hverjar voru byggðar á röngum forsendum. Forsvarsmönnum Alcoa var ekki boðið í viðtal vegna umfjöllunarinnar og gafst því ekki kostur á að svara þeim ásökunum sem á það voru bornar í síðasta Kastljósþætti vetrarins.

 

Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði var reist á árunum 2003-2007. Upphafleg fjárfesting nam um 220 milljörðum króna að núvirði, og frá því að álverið hóf starfsemi árið 2007 hefur verið fjárfest enn frekar í rekstrinum, fyrir um 13 milljarða króna.

Fjárfestingarsamningur Alcoa og ríkisstjórnar Íslands frá 2003 var ein af forsendum þess að Alcoa réðist í svo viðamikið verkefni á Íslandi. Eðli fjárfestingarsamningsins er að treysta grundvöll fjárfestingarinnar til lengri tíma, til hagsbóta fyrir báða samningsaðila, það er, að rekstrarumhverfi fyrirtækisins sé skýrt en jafnframt að fyrirtækið leggi sitt af mörkum til uppbyggingar í samfélaginu. Þessi markmið hafa gengið eftir og hefur fyrirtækið aflað þjóðarbúinu tæpra 200 milljarða króna frá árinu 2008, þar af um 33 milljarða á síðasta ári, í formi skatta og opinberra gjalda, launa, innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu auk samfélagsstyrkja. Skattar og opinber gjöld námu 1,5 milljörðum króna 2013 og frá 2007 hefur Alcoa greitt tæpa níu milljarða í skatta hér á landi. Það er hluti af eðlilegu ferli þegar erlendir aðilar fjárfesta háar upphæðir til langs tíma að gera um það fjárfestingarsamning, enda hefur þeirri vegferð verið haldið áfram og nýir fjárfestingarsamningar verið undirritaðir á Íslandi bæði á þessu og síðasta ári.

Allt uppi á borðum

Ljóst var frá upphafi að fjármagna þyrfti þá dýru framkvæmd sem bygging Fjarðaáls var. Í fjárfestingarsamningnum sem stjórnvöld og Alcoa gerðu með sér árið 2003 er heimild Alcoa á Íslandi til lántöku frá móðurfélaginu skýr. Samningurinn er opinbert skjal og innihald hans á ekki að koma þeim sem kynna sér það á óvart. Samningurinn var samþykktur á Alþingi og ekkert ófyrirséð hefur gerst við framkvæmd hans eða fjármögnun á Íslandi. Alcoa hefur virt samninginn í einu og öllu.

Fjármögnun Alcoa

Bygging Fjarðaáls og rekstur fyrstu árin voru fjármögnuð með lánsfé frá móðurfélagi þess. Fyrirtækið er enn skuldsett, en auk upphaflegrar fjárfestingar hefur félagið fjármagnað viðbótarfjárfestingar eftir að byggingu álversins lauk og taprekstur fyrri ára. Alcoa á Íslandi nýtur hagstæðra lánakjara í gegnum móðurfélag sitt. Vextir lánanna eru markaðsvextir, þeir byggja á millibankavöxtum, LIBOR, að viðbættu álagi sem óháður aðili, Deutsche Bank, reiknar og gefur út fyrir hvern ársfjórðung. Ákvörðun vaxtanna er í samræmi við alþjóðlegar reglur OECD. Í lok árs 2012 námu vextirnir 2,38% en voru að meðaltali um 3,5% það ár. Árin 2010 og 2011 voru vextirnir innan við 3%. Ekki er óalgengt að íslensk fyrirtæki fjármagni sig á vöxtum sem eru nærri 7%. Af þessu má sjá að Alcoa Fjarðaál flytur ekki fjármagn til móðurfélagsins í gegnum óeðlilega háar vaxtagreiðslur. Þvert á móti eru kjörin afar hagstæð, gegnsæ og ákvörðuð í samræmi við viðurkenndar alþjóðlegar reglur.

Hagkvæmni Fjarðaáls

Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði er í hópi tæknilega fullkomnustu álvera heims og reksturinn er kostnaðarlega hagkvæmur, þ.e. kostnaður við framleiðslu á hverju tonni af áli er mjög samkeppnishæfur. Þrátt fyrir þetta gerir hár fjárfestingarkostnaður og afkoma undir upphaflegum væntingum það að verkum að fyrirtækið hefur ekki skilað hagnaði undanfarin ár.

Botninum náð

Á nýlegum ársfundi Samáls kom fram í máli Kelly Driscoll frá greiningarfyrirtækinu CRU að hann teldi að botninum væri náð í áliðnaði og vænta mætti hækkandi álverðs á næstu árum samfara vaxandi eftirspurn og minnkandi álbirgðum. Samkvæmt spá CRU mun álverð, sem í dag er um 1.800 dalir á tonnið, ná 2.200 dölum árið 2016. Með bættri afkomu munu skapast tækifæri til greiðslu tekjuskatts til lengri tíma. Uppsafnað tap fyrri ára, sem einnig hefur áhrif á tekjuskattsgreiðslur, fyrnist á tíu árum, en í tilviki Fjarðaáls var það mest á upphafsárunum, til og með árinu 2007. 

Með hæstu tekjuskattsgreiðendunum

Fyrirtæki í áliðnaði eru á meðal hæstu tekjuskattsgreiðenda á Íslandi. Sambærileg félög hafa farið í gegnum sams konar ferli og Alcoa á Íslandi eftir mjög kostnaðarsamar fjárfestingar. Alcoa tjaldar til langs tíma á Íslandi og líkt og önnur fyrirtæki sem starfrækt hafa verið til fjölda ára mun Alcoa minnka sínar skuldir og lækka afskriftir. Með batnandi afkomu mun fyrirtækið væntanlega skipa sér ofarlega á lista tekjuskattsgreiðenda á Íslandi þegar fram líða stundir, að auki við það mikla framlag sem kemur frá fyrirtækinu nú þegar eftir aðeins fárra ára starfsemi.

Ómálefnaleg umræða

Umfjöllun Kastljóssins hinn 28. maí sl. um starfsemi Alcoa á Íslandi þótti undirrituðum vera ómálefnaleg auk þess sem það kom á óvart að þingmaður virtist ekki hafa kynnt sér fjárfestingarsamninginn sem Alþingi samþykkti. Það er óviðunandi að þingmaður haldi því fram opinberlega að fyrirtæki sem virðir í einu og öllu gerðan samning stundi bókhaldsbrellur og að stjórnendur þess séu siðlausir. Dylgjur fyrrverandi ríkisskattsstjóra, um að fyrirtækið gæti flutt fjármuni úr landi til móðurfélagsins án þess að það kæmi fram í bókum þess til að forðast skattgreiðslur, voru ekki síður ómálefnalegar. Ársreikningar Alcoa á Íslandi og Fjarðaáls eru endurskoðaðir og áritaðir. Þeir eru aðgengilegir og í þeim koma fram allar fjármagnsfærslur til og frá félaginu.

Ábyrgð og reglufylgni

Alcoa er gildisdrifið fyrirtæki og leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og reglufylgni. Það hegðar sér ekki með þeim hætti sem lýst var í Kastljósi. Við erum stolt af framlagi fyrirtækisins til íslensks samfélags, en tekjuskattur er einungis einn liður í því framlagi. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2012 stendur íslenskur áliðnaður undir 25% af heildarútflutningi þjóðarinnar og skilar um 7% til landsframleiðslunnar, fyrir utan afleidd áhrif. Alcoa á Íslandi hefur mikil og jákvæð áhrif á íslenskan efnahag með öflun gjaldeyristekna, innkaupum á innlendri vöru og þjónustu, greiðslu skatta og opinberra gjalda, sköpun 900 vel launaðra starfa og almennum og víðtækum stuðningi við samfélagið á Austurlandi.

 

Magnús Þór Ásmundsson. 

Höfundur er forstjóri Alcoa á Íslandi.


Sjá einnig