Þjóðarhagur

Álframleiðsla á Íslandi hófst árið 1969 þegar álverið í Straumsvík tók til starfa. Framleiðslan fyrsta árið var 33.000 tonn. Rio Tinto Alcan, sem starfar í Straumsvík, hefur verið stækkað og framleiðslugeta þess aukin í um 200 þúsund tonn. Tvö önnur álver hafa tekið til starfa, álver Norðuráls á Grundartanga árið 1998 og álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði árið 2007. Samanlögð framleiðslugeta þessara 3ja álvera er i, 850 þúsund tonn. Heimsframleiðsla á áli fór yfir 50 milljónir tonna árið 2013 og stefnir hraðbyri að 60 milljóna markinu. Hlutur Íslands er því hátt í 2%.

Ljóst er að uppbygging stóriðju á Íslandi hefur umbreytt hagkerfinu hér á landi. Með auknum álútflutningi hefur tekist að draga úr hlutfallslegu vægi annarra útflutningsgreina og skjóta fleiri stoðum undir rekstur þjóðarbúsins. Tilkoma álútflutnings hefur verið til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Frá árinu 1969, þegar álverið í Straumsvík tók til starfa, hefur hlutur áls í vöruútflutningi tæplega fimmfaldast en hlutur sjávarútvegs nær helmingast. Árið 2012 námu útflutningsverðmæti áls tæplega fjórðungi af heildarverðmæti alls útflutnings í hagkerfinu.

Árið 2012 námu tekjur af útflutningi áls 226 milljörðum króna. Þetta svarar til um það bil 23% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Til að framleiða þessi verðmæti þurfti að flytja inn súrál fyrir um 63 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuður áliðnaðarins á síðasta ári nam um 120 milljörðum króna. Kostnaður sem fellur til vegna reksturs álveranna hér á landi nemur um 40% af heildartekjum þeirra. Árið 2012 nam þessi kostnaður 100 milljörðum króna.

Sala raforku til áliðnaðar hefur verið með arðsömustu starfsemi raforkufyrirtækja hér á landi um árabil. Sem dæmi má nefna að arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar hefur að meðaltali verið um 15% á ári undanfarin 10 ár. Það er nokkru meiri arðsemi en að meðaltali hjá skráðum bandarískum orkufyrirtækjum á sama tímabili samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið. Um 80% af raforkusölu Landsvirkjunar er til stóriðju. Þá hefur Landsvirkjun gefið það út að félagið geti greitt upp allar skuldir sínar á 10-12 árum. Má hiklaust fullyrða að sala á orku til stórnotenda hafi verið forsenda þess að Íslendingar gátu ráðist í virkjun fallvatnanna og þar með nýtt sína helstu auðlind, þjóðinni til hagsbóta.

Því er stundum haldið fram að almenningur hafi niðurgreitt raforkuverð til stóriðju. Slíkt er fjarri  sanni. Stærra og hagkvæmara raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur þvert á móti leitt til lækkunar á raforku til almennings. Raforkuverð til heimila hefur að jafnaði lækkað um 25% að raunvirði frá árinu 1997, sem að stórum hluta má skýra með auknu umframafli frá orkufrekum iðnaði sem sinnir afltoppum á almenna markaðnum.

Samkvæmt tölum sem birtar voru á ársfundi Landsvirkjunar árið 2010, er raforkuverð til almennings á Íslandi, hið lægsta í Evrópu og þótt víðar væri leitað.  Á fundinum kom einnig fram að ef borið er saman raforkuverð til stóriðju annars vegar og almennings hins vegar, greiða álverin að meðaltali um 70% þess verðs sem heimilin greiða. Nýtingartími álveranna er hins vegar mun meiri, eða 96% að jafnaði samanborið við um 56% hjá almennum notendum. Að teknu tilliti til þessa eru álverin að greiða 24% hærra verð fyrir uppsett afl en almennir notendur.

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum byggt upp traust eiginfjárhlutfall án framlaga frá eigendum sínum og verið fær um að standa undir afborgunum þeirra lána sem fyrirtækið hefur tekið. Þar hafa skattgreiðendur ekki þurft að hlaupa undir bagga.

Sjá einnig