Tveir þriðju hlutar áldósa í Evrópu endurunnar árið 2010

Endurvinnsluhlutfall áldósa í Evrópu jókst um 2,4 prósentustig árið 2010 og nam 66,7%. Heildarnotkun áldósa það ár nam 36 milljörðum dósa og hafði aukist um 2 milljarða dósa á milli ára. Um 24 milljarðar dósa voru því endurunnar það ár, samkvæmt árlegri samantekt Evrópusamtaka álframleiðenda, EAA.

Könnun samtakanna nær til allra aðildarríkja ESB og EFTA auk Tyrklands. Hæst er endurvinnsluhlutfallið í Þýskalandi, 96%, en Norðurlöndin standa einnig vel að vígi í þessum samanburði. Þannig nam endurvinnsluhlutfall hér á landi um 85%, í Finnlandi 95%, Í Noregi 93%, í Danmörku 89% og Svíþjóð 87%.

Endurvinnsla áldósa sparar umtalsverða losun gróðurhúsalofttegunda á ári hverju. Með henni sparast árlega um 2,5 milljónir tonna í losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, þar sem um 95% minni raforku þarf til endurvinnslu áls en til frumframleiðslu þess. Þetta samsvarar því að fækka bifreiðum á götum álfunnar um 1 milljón.

Mikill árangur hefur náðst í þessum efnum á undanförnum árum. Fyrir um 20 árum síðan nam endurvinnsluhlutfall áldósa í álfunni aðeins liðlega 20% og árið 2005 komst það yfir 50% í fyrsta sinn. Með sama áframhaldi gerir EAA ráð fyrir því að endurvinnsluhlutfall í Evrópu nái um 75% árið 2015, eða þar um bil.


Sjá einnig