Eftirminnilegasta viðtal ársins

Eftirminnilegasta viðtal ársins

 

Daginn fyrir gamlársdag endurflutti Síðdegisútvarp Rásar 2 nokkur af eftirminnilegustu viðtölum ársins að mati umsjónarmanna. Eitt þeirra var við Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla.

Í viðtalinu sagði Jón að fiskimið og raforkuauðlindir Íslendinga fælu líklega í sér meiri verðmæti á hvern íbúa en olíuauðlindir Norðmanna. Hins vegar hefði stefna íslenskra stjórnvalda – um úthlutun aflaheimilda „langt undir markaðsvirði“ og orkusölu til stóriðju „á tombóluverði“ – komið í veg fyrir að þessi verðmæti skiluðu sér til almennings í sama mæli og í Noregi og raunar nyti almenningur hér „mjög lítið“ góðs af þeim.

Jón taldi einfalt að bæta úr þessu: „Ég held að ef við tækjum upp stefnubreytingu þar sem [...] við legðum sæstreng til Bretlands og seldum stærri hluta af þeirri raforku sem við framleiðum á heimsmarkaðsverði þá gæti slíkt verkefni skilað kannski 50 milljörðum árlega í ríkissjóðinn.“ Lokaorð: „Við gætum alveg eins verið jafnrík og Norðmenn. Ég sé ekki af hverju við ættum ekki að gera það.“ Þetta eru vissulega einföld og eftirminnileg ummæli en við þau er fleira en eitt að athuga.

1) Í fyrsta lagi skal áréttað að sjálfsagt er að skoða vandlega kosti og galla þess að leggja sæstreng. En um niðurstöðu af því mati er ekki hægt að fullyrða í dag. Um það eru allir sammála.

2) Landsvirkjun gefur upp að meðalverð til stóriðju árið 2013 hafi verið 25,8 dollarar á megavattstund. Afar langsótt er að kalla þetta tombóluverð því að þetta sama ár var meira en þriðjungur af öllu áli utan Kína framleitt við lægra rafmagnsverð en 25,8 dollara (nánar tiltekið 34,6% allrar álframleiðslu utan Kína skv. upplýsingum frá greiningarfyrirtækinu CRU). Ísland er því samkeppnishæft hvað varðar orkuverð til álframleiðslu en samt ekki í lægsta þriðjungi. Þá ber að hafa í huga að undanfarna áratugi hefur hvaða fyrirtæki sem er getað bankað upp á hjá íslenskum orkufyrirtækjum og falast eftir orku til kaups. En staðreyndin er sú, að það tók 40 ár að reisa þrjú álver á Íslandi. Ef orkuverð hefði verið langt undir markaðsverði hefði verið slegist um orkuna og stóriðjan byggst upp á augabragði, í það minnsta mun hraðar en á 40 árum.

3) Það er í samræmi við kenningar hagfræðinnar að orkuverð hér á landi sé ekki eins hátt og á meginlandinu, enda er orkan staðbundin á Íslandi og fámennið veldur því að heimamarkaðurinn er hverfandi og viðamikla skipaflutninga þarf til að koma afurðum á helstu markaðssvæði. Það segir sig sjálft að Norðmenn fengju minna fyrir olíuna ef aðeins væri hægt að nota hana í Noregi. Þannig virka einfaldlega lögmálin um framboð og eftirspurn.

4) Þrátt fyrir þetta greiða álver á Íslandi hærra orkuverð en þekkist víða annars staðar samkvæmt úttekt greiningarfyrirtækisins CRU, til að mynda í Kanada og Mið-Austurlöndum. Ástæðan fyrir því að Ísland er eftirsóknarverður staður til uppbyggingar áliðnaðar er sú, að slíkur iðnaður þarfnast gríðarlegrar orku og mikils afhendingaröryggis. Þess vegna eru álver iðulega staðsett nálægt upptökum orkunnar fremur en markaðssvæðum afurðarinnar – öfugt við flestar aðrar atvinnugreinar.

5) Það stenst enga skoðun að almenningur njóti í mjög litlum mæli góðs af orkusölu til stóriðju. Hún er ein þriggja meginstoða útflutnings og dýrmætra gjaldeyristekna þjóðarinnar. Stóriðjan var forsenda fyrir hagkvæmum virkjunum, sem framleiða sjálfbæra og endurnýjanlega orku, og hafa skapað gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga sem eru í fremstu röð í heiminum á þessu sviði. Vandfundinn er blettur á jarðarkringlunni þar sem almenningur fær ódýrara rafmagn og má líta á það sem eitt form arðgreiðslu. Þá er orkuframleiðsla hvergi meiri miðað við höfðatölu og afhendingaröryggi á heimsmælikvarða. Eftir áratugalöng viðskipti við stóriðjuna er Landsvirkjun öflugt fyrirtæki með 200 milljarða í bókfærðu eigin fé. Fjármunamyndunin nam 100 milljörðum frá 2010 til 2013 og skiptist að jöfnu í niðurgreiðslu skulda og nýfjárfestingar. Það gefur nokkra hugmynd um getu fyrirtækisins til að greiða arð til ríkisins. Á síðasta ársfundi Landsvirkjunar kom fram, að fyrir ári síðan var staðan sú, að Landsvirkjun gat að óbreyttum forsendum greitt niður allar sínar skuldir á rúmum níu árum.

6) Það er rangt hjá Jóni að heimsmarkaðsverð fyrir sæstrengsorkuna (þ.e. markaðsverð í Bretlandi) myndi skila 50 milljarða árlegum gróða. Þvert á móti yrði strengurinn rekinn með tapi ef aðeins fengist markaðsverð skv. nýlegri úttekt hagdeildar Landsbankans. Ummæli Jóns um „heimsmarkaðsverð“ voru líklega mismæli því að á öðrum stað í viðtalinu bendir hann réttilega á að orkuverðið sem einkum er horft til er ekki markaðsverð heldur ríkisstyrkt ofurverð, langt yfir markaðsverði, sem bresk stjórnvöld eru í einhverjum tilvikum tilbúin að greiða fyrir endurnýjanlega orku í pólitískum tilgangi og nota til þess skattfé.

7) Fáir ef nokkrir hafa mælt með því að „við“, þ.e. Íslendingar, legðum sæstrenginn eins og Jón virðist vera að leggja til þótt orðalag hans kunni að vera ónákvæmt. Hagfræðistofnun áætlar að strengurinn kosti 170-400 milljarða og forstjóri Landsvirkjunar sagði á haustfundi fyrirtækisins 2013 að framkvæmdaáhætta, rekstraráhætta og markaðsáhætta af slíku verkefni væri að hans mati of stór fyrir íslenska aðila.

8) Það er engin innistæða fyrir því að tala eins og gróðinn af lagningu sæstrengs sé nánast í hendi bara ef við nennum að sækja hann. Ekki einu sinni áköfustu talsmenn sæstrengs tala með þeim hætti. „Uppbygging og rekstur sæstrengs er án efa mjög áhættusamt verkefni bæði út frá fjárhagslegum og tæknilegum forsendum,“ sagði í skýrslu Gamma fyrir Landsvirkjun (2013) og „mikil óvissa ríkir um þær forsendur sem nauðsynlegt er að notast við til þess að meta þjóðhagsleg áhrif sæstrengsins,“ sagði Hagfræðistofnun í skýrslu um þjóðhagsleg áhrif sæstrengs (2013). Má meðal annars vísa til þess, að ef orkan er nýtt til uppbyggingar iðnaðar hér á landi, felst í því margvíslegur ábati fyrir þjóðfélagið. Ef horft er til áliðnaðarins, þá nægir að nefna að álverin keyptu vörur og þjónustu á Íslandi fyrir um 40 milljarða árið 2012 og yfir 30 milljarða árið 2013 og er þá raforka undanskilin. Auk þess greiða álverin hátt í 20 milljarða árlega í laun og opinber gjöld.

Að lokum: Kannski er sæstrengur tæknilega mögulegur og ef til vill stendur framkvæmdin undir sér. Óvissuþættirnir eru of margir til að telja upp hér, en ef allt gengi eftir fæli það mögulega í sér góða viðbót við orkusölu til stóriðju. En hin nýja staða væri að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir fyrri stefnu sem hefur svo sannarlega verið farsæl, fært Íslendingum gríðarlegan ávinning og mun gera það áfram. 

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda

Sjá einnig