Virðismeiri afurðir í áliðnaði

 

Rio Tinto Alcan steig stórt skref í áframvinnslu áls hér á landi þegar það sendi frá sér síðasta álbarrann í janúar á þessu ári. Nú framleiðir það verðmætari afurð sem flokka má sem næsta hlekk í virðiskeðjunni, en það eru álboltar eða álstangir, sívalar stangir til þrýstimótunar.

Framþróunin var liður í fjárfestingarverkefni upp á hátt í 60 milljarða í Straumsvík sem hófst árið 2010 og lýkur á þessu ári, en það snerist einnig um að bæta rekstraröryggi og skilar því að framleiðslan eykst úr 190 í 205 þúsund tonn.

„Við erum búin að breyta hluta af okkar búnaði til að framleiða stangir sem þurfa meiri úrvinnslu en eru verðmætari en barrarnir,“ sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, af þessu tilefni í blaðaviðtali. „Þetta er skemmtilegt fyrir okkur að framleiða meira virðisaukandi og flóknari vörur.“

Flóknari og verðmætari afurðir

Yfir 40% af framleiðslu Alcoa á Reyðarfirði flokkast undir áframvinnslu, þ.e. flóknari og verðmætari afurðir en hreint ál. Sá hluti framleiðslunnar felst annars vegar í melmi sem notaður er í bifreiða- og flugvélaiðnaði og hinsvegar álvírum sem fara m.a. í háspennustrengi, bæði loftlínur og jarðstrengi, og rafmagnskapla í húsbyggingum. Þess má geta til gamans, að álþráðurinn í 50 evra seðlinum er upprunninn hjá Fjarðaáli.

Þá hófst fjárfestingarverkefni hjá Norðuráli í fyrra, sem hljóðar upp á á annan tug milljarða, þar sem lagt er upp með að auka framleiðni, bæta rekstraröryggi og auka framleiðslu um allt að 50 þúsund tonn á ári. Liður í því er frekari vinnsla á álinu, sem felst í framleiðslu á melmi, en melmir er sem fyrr segir notaður í vörur af öllu tagi, allt frá gosdósum til geimflauga.

Hátt í 100 milljarðar eftir í landinu

Þegar litið er til heildaráhrifa áliðnaðarins á efnahagslífið, þá stendur upp úr að árið 2013 urðu um 90 milljarðar eftir í íslensku hagkerfi, en árið 2012 voru það um 100 milljarðar. Það er gjaldeyrir sem streymir inn í landið. Álverin vörðu rúmum 30 milljörðum í kaup á vörum og þjónustu árið 2013, áttu viðskipti við um 700 fyrirtæki og vörðu tæpum 20 milljörðum í laun og opinber gjöld.

Þá hefur áliðnaðurinn gert Íslendingum kleift að byggja upp öflugasta raforkukerfi í heiminum miðað við höfðatölu, en áliðnaðurinn kaupir yfir 70% af allri orku Landsvirkjunar. Fyrir vikið býr almenningur hvergi við lægra raforkuverð og afhendingaröryggi er með því besta sem þekkist. Og það þrátt fyrir að Ísland sé fámennt og strjálbýlt samfélag á harðbýlli eyju, sem er þrisvar sinnum stærri en Danmörk.

Á síðasta ársfundi Landsvirkjunar kom fram að árið 2013 hefði verið eitt besta rekstrarár í sögu Landsvirkjunar, fyrirtækið yrði að óbreyttum forsendum skuldlaust innan tíu ára miðað við síðustu áramót og að arðsemisáætlanir hefðu staðist um Kárahnjúkavirkjun.

Það er ekki lítið samkeppnisforskot fyrir Íslendinga að búa við öflugan orku- og áliðnað.

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.


Sjá einnig