Hverjar eru horfur í þróun álverðs?

Hverjar eru horfur í þróun álverðs?

 

Í samanburði við annan málmiðnað hefur orðið mestur vöxtur í álframleiðslu í heiminum frá aldamótum. Ekkert bendir til annars en að eftirspurnin haldi áfram að vaxa hratt, en hún fór í fyrsta skipti yfir 50 milljónir tonna á síðasta ári. Af ýmsum ástæðum hefur ál ekki hækkað jafnmikið í verði og aðrir málmar á sama tímabili. En verð fer hækkandi og horfur eru góðar til lengri tíma litið.

Þetta var kjarninn í því sem Kelly Driscoll framkvæmdastjóri á greiningarsviði CRU hafði fram að færa á ársfundi Samáls, samtaka álframleiðenda, sem haldinn var á dögunum. CRU er leiðandi í heiminum í greiningu á áliðnaðinum og öðrum málmiðnaði og starfrækir meðal annars skrifstofu í Kína, enda nauðsynleg forsenda greiningar á áliðnaðinum að fylgjast með þróuninni þar.

Birgðir dragast saman

Eftir ársfundinn mátti lesa í bloggi að CRU hefði ekki séð fyrir mikla niðursveiflu í áliðnaðinum upp úr 2007, en óhætt er að fullyrða að flestum greiningarfyrirtækjum yfirsást bankahrunið og það jafnvel greiningardeildum sem störfuðu inni á miðju gólfi í bönkunum sjálfum. Almennt hefur CRU verið frekar íhaldssamt í spám um uppgang og niðursveiflur og það er nokkuð sem greiningaraðilar að markaði eiga sammerkt, enda kollsteypur sjaldnast fyrirsjáanlegar.

Í fjármálakreppunni dróst eftirspurn eftir áli saman vegna samdráttar á mörkuðum. Það hefur tekið langan tíma að vinda ofan af umframframleiðslunni, en utan Kína hefur álverum þó verið lokað með samanlagt um þriggja milljóna tonna framleiðslugetu á síðustu þremur árum. Liður í því hversu langan tíma það hefur tekið fyrir markaðinn að leiðrétta sig er að vextir eru lágir í heiminum og fjárfestar hafa því kosið að ávaxta sitt pund með framvirkum samningum um ál. Fyrir vikið hafa safnast upp birgðir í vöruhúsum og hefur flöskuháls í þeim aukið enn á vandann.

Jákvæðu tíðindin eru hinsvegar þau að eftirspurnin var fljót að taka við sér aftur og hafði slegið öll fyrri met þegar árið 2009. Þegar horft er til veltuhraða birgða, þ.e. daganna sem það tekur að tæma vöruhúsin miðað við núverandi eftirspurn, er ljóst að birgðir hafa dregist saman á síðustu misserum. CRU segir birgðir í heiminum fara áfram minnkandi, en þær voru yfir 100 dagar þegar mest lét og verða um 60 dagar árið 2018. Það er gömul saga og ný, að eftir því sem dregur úr birgðum, má reikna með hærra álverði.

Heimurinn utan Kína

Meginástæðan fyrir því að álverð hefur ekki hækkað meira er sú að Kínverjar hafa aukið framleiðslu sína verulega og er nú sjaldnast talað um álframleiðslu í heiminum, heldur er heimsbyggðinni skipt upp í Kína og heiminn utan Kína. Stór hluti af áliðnaðinum í Kína er knúinn áfram af kolaorku, sem er ekki aðeins óhagkvæmt heldur mengar að minnsta kosti tólffalt meira en álver knúin af vatnsafli. Stjórnvöld eru að reyna að grípa inn í og loka álverum, en það hefur gengið hægar en lagt var upp með.

Kína flytur hinsvegar ekki út frumframleitt ál, heldur notar það til framleiðslu innanlands og flytur raunar inn mikið af álafurðum til endurvinnslu. Það varðar því íslenskan áliðnað mestu að horfa til „heimsins utan Kína“, en nánast allt ál sem framleitt er hér á landi er selt á mörkuðum í Evrópu.

Umframeftirspurn er í heiminum utan Kína, enda hefur dregið verulega úr framleiðslu á þeim markaði, og um leið hefur verið að færast þróttur í efnahagslífið í Evrópu og Bandaríkjunum. Útlit er fyrir verulegan vöxt á næstu árum á helstu mörkuðum fyrir ál, svo sem í bílaframleiðslu og byggingaiðnaði. Það ýtir enn frekar undir eftirspurnina að hlutfall áls í bifreiðum fer stöðugt hækkandi og er gert ráð fyrir að notkunin aukist um 2,5 milljónir tonna til ársins 2023. Ástæðan er sú að álið léttir bifreiðarnar og það dregur aftur úr brennslu eldsneytis og útblæstri. En eiginleikar álsins spila líka inn í framþróun rafbíla eins og sjá má á Teslunni, sem er að uppistöðu til úr áli. Mikið er lagt upp úr því að létta rafbíla til að þeir komist lengra á hleðslunni.

Sveiflur á frjálsum markaði

Eins og Íslendingar þekkja er hugsað til áratuga í áliðnaðinum og það verða óhjákvæmilega sveiflur á frjálsum markaði. En ljóst er að eftirspurn fer ört vaxandi í heiminum, umframeftirspurn er utan Kína og álverð fer hækkandi. Það segir sína sögu að í greiningu CRU er gert ráð fyrir að upp úr 2020 skapist þörf fyrir nýtt 600 þúsund tonna álver á hverju ári utan Kína.

Íslenskur áliðnaður er ein af grunnstoðum í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og skilar um 100 milljörðum á ári í þjóðarbúið með kaupum á innlendum vörum og þjónustu. Samhliða stóriðjunni hefur byggst upp hér á landi öflugasta raforkukerfi í heiminum miðað við höfðatölu og var ánægjulegt að heyra það á síðasta ársfundi Landsvirkjunar að fyrirtækið getur greitt niður allar sínar skuldir á innan við tíu árum. Í því felst mikið samkeppnisforskot fyrir íslenskt atvinnulíf.

Pétur Blöndal

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.


Sjá einnig