Mikil gróska í íslenskum áliðnaði

Fjallað er um nýsköpun og stefnumótun álklasans á Íslandi í viðtali við Pétur Blöndal framkvæmdastjóra Samáls, samtaka álframleiðenda, sem birtist í nýjasta tölublaði Vélabragða, tímarits nemenda í véla- og iðnaðarverkfræði við HÍ. Hér má lesa viðtalið í heild sinni:

Stofnun álklasa á Íslandi hefur verið eitt af meginverkefnum Samáls, samtaka álframleiðenda, síðan Pétur Blöndal tók við sem framkvæmdastjóri Samáls haustið 2013. Um svipað leyti fékk álklasinn bronsmerkingu hjá Evrópuskrifstofu um klasagreiningu, ráðist var í stefnumótun vorið 2014 og síðasta haust var efnt til stefnumóts þarfa og lausna í áliðnaði.

“Öfugt við það sem sumir halda, þá eru ekki einungis þrjú álfyrirtæki á Íslandi, heldur skipta þau tugum og hundruðum,” segir Pétur. “Það segir sína sögu að árið 2012 keyptu álverin þjónustu af 700 fyrirtækjum fyrir um 40 milljarða, en það er svipuð fjárhæð og heildarkostnaður við rekstur Landspítalans nemur á fjárlögum, sem er stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisins.”   

Fjölbreytt flóra starfa og fyrirtækja

Í álklasanum eru fyrirtæki af öllum toga og störfin fjölbreytt eftir því. “Þar á meðal eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, málmsmiðjur, tæknifyrirtæki, flutningafyrirtæki, endurvinnslufyrirtæki og svo mætti lengi telja, en einnig stofnanir á borð við HÍ, HR, Keili, Hönnunarmiðstöð og Nýsköpunarmiðstöð,” segir Pétur.

“Það er mikil gróska í íslenskum áliðnaði. Hér á landi eru öflug fyrirtæki sem hafa haslað sér völl í þjónustu við álverin og eiga í viðskiptum við álfyrirtæki um allan heim, svo sem HRV, Efla og VHE. Enda eru álverin hér á landi alþjóðleg og má segja að þau séu sýningargluggi út í heim fyrir íslenska nýsköpun. Á það hefur verið bent að krítískur massi hafi myndast í íslenskum áliðnaði þegar Alcoa hóf starfsemi árið 2007 og nú er Ísland næststærsti álframleiðandi í Evrópu á eftir Norðmönnum. Það skapar fjölbreytt sóknarfæri, enda er Evrópa helsti markaður álfyrirtækjanna, og eftir miklu er að slægjast.”

Sterkir útflutningsatvinnuvegir forsenda lífsgæða

Stjórnvöld vinna um þessar mundir að mótun klasastefnu fyrir Ísland, þar sem meðal annars er lagt upp með að skilgreina öfluga klasa og tækifæri til sóknar út fyrir landsteinana. “Ef til vill má rekja upphafið til komu Michaels Porters til landsins haustið 2006, en í máli hans kom fram að hér á landi væri grundvöllur fyrir klasa í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, jarðvarma og málmorkuiðnaði,” segir Pétur.

“Það eru atvinnugreinar sem byggst hafa upp hér á landi í áratugi, safnast hefur reynsla og þekking og skapast samkeppnishæfni, sem er góð undirstaða frekari uppbyggingar. Sterkir útflutningsatvinnuvegir eru forsenda þess, að Íslandi geti haldið uppi lífsgæðum hér á landi sem eru sambærileg við nágrannalöndin – og keppt um ungt og menntað fólk.”

Framtíðarsýn álklasans

Um 40 stofnanir og fyrirtæki komu saman í Borgarnesi í apríl síðastliðnum og mótuðu framtíðarsýn fyrir íslenska álklasann. Stefnumótunin var síðan gefin út á stefnumóti þarfa og lausna síðastliðið haust, þar sem kynntar voru fjölmargar sprotahugmyndir og rætt um nýsköpunarumhverfið í áliðnaðinum. Á meðal þess sem fram kemur í framtíðarsýn álklasans er:

“Íslenskur áliðnaður er þekkingariðnaður þar sem rannsóknir og miðlun þeirra eru drifkraftur nýsköpunar og þróunar.”

“Íslenskur áliðnaður er leiðandi í umhverfismálum á heimsvísu. Nánast engin úrgangsefni eru send til urðunar og allar aukaafurðir nýttar innanlands til verðmætasköpunar.”

“Ekkert land framleiðir ál sem hefur minna kolefnisspor en það sem framleitt er á Íslandi og hefur það skapað forskot í markaðssetningu og verðmætasköpun.”


Sjá einnig