Mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðir

Mikla orku þarf til að framleiða ál og við framleiðsluna losnar óhjákvæmilega koltvísýringur og aðrar gróðurhúsalofttegundir. Heildarlosun á hvert framleitt tonn er mjög breytileg eftir uppruna raforkunnar og gerð og aldri álvers. Þannig getur heildarlosun á framleitt tonn numið allt að 17 tonnum, ef notast er við raforku frá kolaiðjuveri. Á Íslandi er þetta hlutfall hins vegar aðeins 1,64 tonn af CO2 á hvert áltonn. Þetta hlutfallið er talið vera nálægt tæknilegu lágmarki en losun vegna efnahvarfs kolefnis í rafskautum við súrefni í súrálinu nemur um 1,5 tonnum á hvert framleitt áltonn.

Við ákvörðun Evrópusambandsins um losunarheimildir fyrir álver sem tóku gildi frá árinu 2013 er tekið mið af frammistöðu þeirra 10% álvera í Evrópu sem best standa sig í þessum efnum og eru íslensku álverin öll í þeim hópi.

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda af rekstri álvera í heiminum skiptist þannig að 72% er vegna raforkuframleiðslunnar, 11% vegna bruna kolarafskauta og 17% vegna útstreymis flúorkolefna (PFC) við álframleiðsluna. Af þessu má sjá að langmest mengun verður vegna orkuframleiðslunnar en slíkri mengun er ekki fyrir að fara hér á landi.

Útstreymi frá álframleiðslu hér á landi er því tvíþætt: 

  • Annars vegar losnar CO2 frá rafskautum sem gerð eru úr kolum en þau eyðast jafnt og þétt í framleiðsluferlinu. Losun vegna þessa er 1,5 tonn. Tilraunir fara fram á kolefnislausum skautum, eða eðalrafskautum en þau leggja ekki til kolefni til sundrunar áloxíðs heldur losa fyrst og fremst um súrefni. Ekki er búist við að þau verði komin í notkun fyrr en eftir áratug eða svo.
  • Hins vegar verða til flúorkolefni þegar spennuris verður í framleiðslukerunum. Losun vegna þessa er 0,1 tonn. Íslensk álfyrirtæki hafa náð mjög góðum árangri við að draga úr spennurisi en meðaltalslosun á heimsvísu í áliðnaði vegna þessa er um 0,59 tonn. Stöðugt er unnið að endurbótum á framleiðslustýringu til að draga úr útstreymi flúorkolefna.

Á árunum 1990-2009 minnkaði útblástur gróðurhúsaloftegunda frá áliðnaði hér á landi um 75% á hvert framleitt tonn.

Losun svonefndra PFC gróðurhúsalofttegunda er 6 sinnum minni hér á landi en almennt tíðkast. Losun PFC nam um 100 kg á hvert framleitt tonn á Íslandi á árinu 2009 en að meðaltali losar álframleiðsla í heiminum um 590 kílóum af PFC lofttegundum á hvert framleitt tonn af áli.


Sjá einnig