Samfélagsmál

 

Álverin þrjú, hvert á sínum stað, eru öll burðarásar atvinnulífsins á sínu svæði. Sú staða leggur þeim ríkar skyldur á herðar þegar kemur að stuðningi við nærsamfélagið. Öll verja þau háum fjárhæðum til samfélagsmála. Árið 2014 vörðu fyrirtækin þrjú liðlega 208 milljónum króna til slíkra verkefna.

Sem dæmi má nefna að Norðurál hefur með margvíslegum hætti stutt við bakið á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í landshlutanum og er t.d. aðalstyrktaraðili Knattspyrnufélags ÍA auk þess sem fyrirtækið hefur lengi lagt Björgunarfélagi Akraness lið, einkum í fræðslustarfi sem snýr að forvörnum fyrir unglinga. Þá hefur Norðurál stutt við svokallað Fab Lab frumkvöðlaverkefni. Hér má fræðast um hlutverk, framtíðarsýn og gildi Norðuráls.

Stefna Alcoa Fjarðaáls er að fjárfesta til framtíðar í öflugu þekkingarsamfélagi bæði innan og utan fyrirtækisins og hafa fyrirtækið og Samfélagssjóður Alcoa veitt rúmlega milljarði króna í samfélagsstyrki á Íslandi á árunum 2003 til 2010. Starfsmenn eru einnig hvattir til að sinna samfélagsmálum og fyrirtækið greiðir styrki með þeim starfsmönnum sem vinna í þágu góðgerðarsamtaka. Hér má fræðast frekar um stefnu Alcoa Fjarðaáls varðandi samfélagsábyrgð.

Rio Tinto Alcan hefur um áratuga skeið lagt sitt af mörkum til samfélagsins, hin síðari árin undir merki Samfélagssjóðs Rio Tinto Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er bakhjarl Íslensku bjartsýnisverðlaunanna og þá veitir Rio Tinto Alcan alþjóðleg verðlaun sem nefnst Sjálfbærniverðlaun Alcan (e. Rio Tinto Alcan Prize for Sustainability). Með þeim vill Rio Tinto Alcan ýta undir metnaðarfullt starfs félagasamtaka um allan heim sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en hafa umhverfislega, félagslega eða efnahagslega sjálfbærni að markmiði. Hér má fræðast frekar um stefnu Rio Tinto Alcan í samfélagsmálum.

Sjá einnig