Álbirgðir að dragast saman á Vesturlöndum

Álbirgðir að dragast saman á Vesturlöndum

 

Fjallað er um stöðu íslensks áliðnaðar, eftirspurn eftir áli, álverð og birgðasöfnun í viðamikilli fréttaskýringu Harðar Ægissonar í Morgunblaðinu. Í fréttaskýringunni er vitnað í Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, Samtaka álframleiðenda á Íslandi, sem segir ástandið á álmörkuðum ekki jafn slæmt og sumir vilji vera láta.

Í samtali við Morgunblaðið bendir hann á að samkvæmt nýlegri greiningu CRU, sem er óháður greiningaraðili um áliðnaðinn, þá mun sá tími sem það tekur að klára álbirgðirnar – miðað við spár um ársframleiðslu á áli – minnka úr ríflega þremur mánuðum í um tvo mánuði fram til ársloka 2017. „Þetta er sá mælikvarði sem hefur mesta þýðingu. Birgðirnar eru að minnka, sem hlutfall af álneyslu, um þriðjung á næstu fjórum árum.“   

Pétur segir þó að það sé „alveg ljóst að það hefur verið bjartara yfir álframleiðslu en um þessar mundir. Álverð er lágt og spáð er hóflegri hækkun á komandi árum. En neyslan eykst meira en framleiðslan og til langs tíma eru horfurnar góðar. Nú þegar er umframeftirspurn utan Kína og útlit er fyrir að hún haldist næstu árin. Kína er hins vegar nánast lokaður markaður og langt í frá einfalt að spá um framvindu þar.“

Hann vekur einnig athygli á því að þegar litið sé á eftirspurnarhliðina þá sé ljóst að mikil eftirspurn sé í pípunum eftir áli – og þar horfi menn einkum til margfalt meiri notkunar á áli í bílum og öðrum samgöngutækjum til að mæta kröfum um minni útblástur og eldsneytisþörf. Auk þess muni eftirspurn vaxa hratt þegar aftur birtir til á evrusvæðinu, þar sem deyfð hefur verið yfir bíla- og byggingariðnaði.

Hér má lesa fréttaskýringuna í heild.

Sjá einnig