Yfirlýsing í tilefni af frétt um kjúklingabúið í Straumi

Vegna umfjöllunar Fréttatímans um afföll á kjúklingabúinu í Straumi árið 1976 er rétt að eftirfarandi komi fram:

Það er engin tilviljun að ISAL var sýknað af kröfum í málinu bæði í héraði og í Hæstarétti, þótt Fréttatíminn sleppi því alveg að fara ofan í ástæður þess.

1) Kúklingabúið hafði verið rekið í ein sjö ár við hliðina á álverinu án þess að getið sé um að áður hafi orðið viðlíka afföll af kjúklingum og urðu alltíeinu þarna. Í fjögur af þessum sjö árum var álverið jafnstórt og það var orðið þegar þetta gerðist og því svipuð eða sama mengun frá því í mörg ár áður en þessir atburðir urðu.

2) Flúor í beinum veiku kjúklinganna frá Straumi var ekki meiri en dæmi voru um í heilbrigðum kjúklingum annars staðar á landinu; hærri gildi mældust í heilbrigðum kjúklingum á búinu að Reykjum í Mosfellsbæ heldur en í öllum kjúklingunum frá Straumi sem rannsakaðir voru nema einum.

3) Burtséð frá því hvort flúor í kjúklingunum í Straumi var mikill eða lítill var hann ekki talinn hafa getað borist í þá frá álverinu í neinu teljandi magni, samkvæmt ítarlegum mælingum, rannsóknum og tilraunum á bæði vatni og lofti. Að mati dómsins var sýnt fram á að þeir fengu nær allan sinn flúor úr fóðrinu, sem keypt var annars staðar frá. Samkvæmt mælingum innihélt fóðrið talsvert af flúor, enda er vel þekkt að kjúklingafóður er flúorríkt.

Virðingarfyllst,

Ólafur Teitur, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi.


Sjá einnig