Umhverfið og álið

Umhverfið og álið

 

Áliðnaður á Íslandi er í fremstu röð í heiminum hvað umhverfismál varðar. Hér á landi er eingöngu notuð endurnýjanleg orka til álframleiðslunnar. Þar sem svo háttar til losa álver og vatnsaflsorkuver sex til níu sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum en álver og orkuver sem brenna jarðefnaeldsneyti.

Oftast er hugtakið gróðurhúsaáhrif notað í neikvæðri merkingu en þá vill gleymast sú staðreynd að gróðurhúsaáhrif eru forsenda lífs á jörðinni. Þau eru náttúruleg og án þeirra væri meðalhitastig á jörðinni -18 °C en ekki +15 °C.  Orka frá sólinni kemst í gegnum gufuhvolf jarðar í formi sólargeislunar. Yfirborð jarðarinnar gleypir megnið af geisluninni og hitnar. Frá heitu yfirborði jarðar streymir varmageislun til baka í formi innrauðrar geislunar. Lofthjúpurinn gleypir hluta af varmageislun yfirborð síns og endurkastar þeim aftur til jarðar. Við það hitnar yfirborð jarðar og neðsti hluti gufuhvolfsins enn frekar. Því má líkja lofthjúpnum við gróðurhús þar sem hann hleypir í gegnum sig sólargeislum, en heldur varmageislum frá jörðinni inni. Þetta köllum við gróðurhúsaáhrif.

Talið er að óeðlileg aukning á losun gróðurhúsalofttegunda geti valdið röskun í vistkerfinu svo sem hitaaukningu, breytingu á veðurfari og hækkun yfirborðs sjávar. Dæmi um gróðurhúsalofttegundir eru koltvísýringur (CO2), metan (CH4), óson (O3), vatnsgufa (H2O), díköfnunarefnisoxíð (N2O), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og ýmis halógenkolefni.

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur aukist mjög í heiminum á síðustu áratugum. Árið 2008 var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda (án landnotkunar) á Íslandi 4,8 milljónir tonna  CO2-ígildi og hafði aukist um liðlega 40% frá árinu 1990. Mestu munar um aukningu í útstreymi koldíoxíðs sem jókst um 52% sem kemur aðallega frá iðnaðarferlum, samgöngum og fiskveiðum.

Á þessum árum hefur álframleiðsla nífaldast hér á landi en útstreymi áliðnaðarins hefur á sama tíma liðlega tvöfaldast. Þrátt fyrir að stundum sé fullyrt að álverin beri meginábyrgð á útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, þ.e. valdi mestri mengun, var hlutur þeirra í heildarútstreyminu árið 2008 aðeins 27%.


Sjá einnig