Hvers virði er ál sem hráefni fyrir Austurland?

Föstudaginn 28. nóvember frá kl. 13 til 16 á Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík stendur Austurbrú fyrir samráðsfundi um ál á Austurlandi. Meðal þeirra spurninga sem leitast verður við að svara á fundinum er hvers virði ál er sem hráefni fyrir Austurland, hvernig hægt sé að nýta auðlindina ál enn betur og hvað skorti á svæðinu þannig að hægt sé að áframvinna ál.

Fundurinn er liður í verkefni sem Austurbrú vinnur að um frekari úrvinnslu á áli en við stofnun Austurbrúar 2012 færðu stjórnvöld Austurbrú stofnfé til að vinna verkefnið. Verkefnið snýst um að greina þá hráefnisflokka áls sem framleiddir eru á Íslandi og  hvernig því er ráðstafað. Megintilgangur verkefnisins er að skapa tengsl sem gætu komið að gagni í þeirri vinnu að gera álið að hráefnisauðlind á Austurlandi. Ennfremur verður unnið að því að koma á fót þekkingar- og þróunarsetri um áframvinnslu áls þar sem unnar verða nauðsynlegar rannsóknir og greiningar af sérfræðingum. Samhliða þessu verður leitast við að hvetja hönnuði og frumkvöðla til að nýta ál sem hráefni, hvort heldur er í sérhæfðan vélbúnað eða vöruhönnun.

Frummælendur á málþinginu verða Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samál, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Studio Bility, Garðar Eyjólfsson, lektor við vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands, Thomas Vailly, verkfræðingur og vöruhönnuður. Fundarstjóri verður Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

Á fundinum verður undirrituð viljayfirlýsing um samstarf í þekkingarsköpun í áliðnaði á Austurlandi þar sem eftirtaldir aðilar lýsa yfir vilja til samvinnu: Samál, Háskólinn í Reykjavík (tækni- og verkfræðideild), Listaháskóli Íslands (vöruhönnun/hönnun og arkitektúr), Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Verkmenntaskóli Austurlands og Austurbrú.

Skráning á málþingið er til 26. nóvember nk. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á austurbru@austurbru.is eða með því að hringja í 470 3800.

 


Sjá einnig