Málstofa um áframvinnslu á áli

Fimmtudaginn 20. ágúst verður málstofa um áframvinnslu á áli í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði. Fulltrúum iðnfyrirtækja og hönnunarsamfélagsins á Austurlandi verður stefnt saman við frumkvöðla þar sem rætt verður um hráefnið ál og möguleika þess.

Fundurinn er liður í verkefni sem Austurbrú vinnur að um frekari úrvinnslu á áli en við stofnun Austurbrúar 2012 færðu stjórnvöld Austurbrú stofnfé til að vinna verkefnið. Verkefnið snýst um að greina þá hráefnisflokka áls sem framleiddir eru á Íslandi og  hvernig því er ráðstafað. Megintilgangur verkefnisins  er að skapa tengsl sem gætu komið að gagni í þeirri vinnu að gera álið að hráefnisauðlind á Austurlandi.  

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar og Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls flytja inngangsorð og setja málstofuna.  

Erindi á málstofunni flytja Grétar Már Þorvaldsson, frummótasmíðameistari hjá Málmsteypunni Hellu, Davíð Þór Sigurðarson og Óskar Björnsson frá Alcoa Fjarðaáli munu fjalla m.a. um framleiðsluferli steypuskála, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, kynnir Fab Lab Austurlands og þá mun Garðar Eyjólfsson, lektor hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ fjalla um hvernig hönnun getur kveikt hugmyndir um notkunarmöguleika innan samfélaga þannig að hægt sé að áframvinna hráefnið í stað þess að flytja það út óunnið.  

Á fundinum munu fulltrúar Alcoa Fjarðaáls jafnframt afhenda formlega styrk frá Alcoa Foundation til Austurbrúar til uppbyggingar innviða skapandi samfélags.  

Allir eru velkomnir á málstofuna sem hefst kl. 10:00 og lýkur kl. 13:00. Hér má fræðast nánar um dagskrána. Nánari upplýsingar veitir Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, í síma 860-2983. Netfang: signy (hjá) austurbru.is.


Sjá einnig