Samtök álframleiðenda tekin til starfa

Samtök álfyrirtækja tekin til starfa:

 

Samtök álframleiðenda tekin til starfa:

Meirihluti landsmanna hlynntur áliðnaði

Íslenskur áliðnaður í fararbroddi hvað umhverfismál varðar

Samtök álfyrirtækja á Íslandi tóku formlega til starfa í dag en markmið samtakanna er að vinna að hagsmunum og framþróun íslensks áliðnaðar og að auka upplýsingagjöf um áliðnaðinn. Í Capacentkönnun sem gerð var 21.-28. október sl. og kynnt var á blaðamannafundi samtakanna í dag, kemur fram að liðlega 54% landsmanna eru jákvæðir gagnvart íslenskum áliðnaði, liðlega 23% landsmanna eru hlutlausir í afstöðu sinni til iðnaðarins en einungis 22% landsmanna segjast neikvæðir gagnvart áliðnaði hér á landi.

„Þessi nýju samtök munu leggja sérstaka áherslu á upplýsingagjöf enda hafa skoðanakannanir sýnt að aðeins 25% landsmanna telja sig þekkja vel til áliðnaðar þrátt fyrir alla þá umfjöllun sem hann hefur fengið. Þá hefur það og sýnt sig að afstaða fólks sem býr í nágrenni við álverin er jákvæðari í garð þeirra. Þetta rímar vel við þá stefnu álfyrirtækjanna að vera góðir grannar. Eftir því sem fólk þekkir betur til iðnaðarins, þeim mun jákvæðara er það. Aukin upplýsingagjöf er því stærsta hagsmunamál áliðnaðarins á Íslandi í dag,“ sagði Rannveig Rist, Stjórnarformaður Samáls.

Á blaðamannafundi Samáls voru kynnt gögn sem sýna að íslenski áliðnaðurinn er í dag í fararbroddi á heimsvísu hvað umhverfismál varðar. Þannig er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn hér á landi, að teknu tilliti til losunar vegna raforkuframleiðslu, aðeins um 20% af losuninni sem verður við framleiðslu málmsins í Evrópu.  Mikil framþróun hefur átt sér stað í íslenskum álverum hvað umhverfismálin varðar en frá árinu 1990 hefur losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn dregist saman um nær 75%.  Á síðasta ári minnkaði losunin á hvert framleitt tonn um 11% frá árinu 2008.

Á vefsíðu samtakanna, www.samal.is koma fram ýmsar upplýsingar um hagræn áhrif áliðnaðarins, m.a. þær að með afleiddum störfum hafa um 4.300 manns framfæri sitt af álframleiðslu en það samsvarar um 2,4% af vinnuaflinu hér á landi. Þá kemur og fram að útflutningstekjur áliðnaðarins árið 2009 námu 170 milljörðum króna en það samsvarar 22% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar.  Af þessum 170 milljörðum sitja um 70 milljarðar eftir hér á landi í formi launagreiðslna, skatta, orkukaupa og ýmissar þjónustu sem álfyrirtækin kaupa. Þess má geta að íslensku álfyrirtækin eiga árlega viðskipti við tæplega 700 íslensk fyrirtæki smá sem stór. 

Sjá einnig