15 milljarða fjárfesting í steypuskála

Jesse Gary, nýr for­stjóri Cent­ury Alum­in­um, seg­ir í samtali við Morgunblaðið það munu kosta um 15 millj­arða að reisa skál­ann. Mark­miðið sé að sækja enn meiri verðmæti í afurðirn­ar. Norðurál hafi ný­verið samið við Lands­virkj­un um kaup á meiri orku sem geri fé­lag­inu kleift að ráðast í þá upp­bygg­ingu. 

„Lands­virkj­un hef­ur verið góður sam­starfs­fé­lagi. Við höf­um fram­lengt samn­ing okk­ar við Lands­virkj­un til þriggja ára, eða til 2026, og samið um af­hend­ingu á meiri orku svo reisa megi steypu­skál­ann. Þar verða fram­leidd­ir eins kon­ar sí­valn­ing­ar úr áli sem verða seld­ir til frek­ari vinnslu í Evr­ópu, í stað þess að flytja álið út óunnið í frek­ari bræðslu,“ seg­ir Jesse.

Kín­verj­ar skipta um gír

Jesse seg­ir þá ákvörðun Kína­stjórn­ar að hægja á upp­bygg­ingu áliðnaðar munu hafa mik­il áhrif.

„Síðustu tvo ára­tugi eða svo hafa ál­ver­in í Kína mætt auk­inni spurn eft­ir áli en Kína fór þá úr því að vera smáfram­leiðandi í að vera stærsti álfram­leiðandi heims. En nú hafa Kín­verj­ar greint frá því að þeir hygg­ist láta staðar numið við upp­bygg­ingu ál­vera, í því skyni að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda, og miða fram­leiðslu­get­una við 46 millj­ón­ir tonna. Til sam­an­b­urðar hljóðar eft­ir­spurn­in í heim­in­um nú upp á 65 millj­ón­ir tonna af áli á ári. Og ef áform Kín­verja ganga eft­ir mun í fyrsta sinn í tvo ára­tugi skap­ast þörf fyr­ir að byggja upp fram­leiðslu­getu á Vest­ur­lönd­um til að mæta vax­andi eft­ir­spurn.“

Jesse Gary er í ítarlegu viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins sem nálgast má hér, en þar segir hann blómaskeið hafið í áliðnaði og eftirspurnina á uppleið. 

Sjá einnig