Álverin þrjú hafa tekið stórt stökk fram á við í áframvinnslu

Stöðug framþróun er í framleiðsluferli áls hér á landi. Að því koma fjölmörg fyrirtæki, sem eiga mismikið undir áliðnaði, en á síðasta ári keyptu íslensku álverin vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja fyrir rúma 60 milljarða. Ef bætt er við raforkukaupum álvera með orkuflutningi má áætla að 85 milljarðar ofan á það, en þá er tekið mið af raforkunotkun og meðalverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Þetta kemur fram í grein Péturs Blöndals í Viðskiptablaðinu sem ber yfirskriftina Engin kyrrstaða í íslenskum áliðnaði.

Pétur segir að ef horft sé til Íslands þá hafi öll álverin þrjú tekið stórt stökk fram á við í áframvinnslu áls. Norðurál vinni um þessa mundir að 16 milljarða fjárfestingarverkefni í nýjum steypuskála, þar sem framleiddar verði álstangir eða sívalningar úr áli. Auk þess verði framleiðsla á málmblöndum aukin verulega. Hingað til hafi álhleifar Norðuráls verið bræddir í stangir í Evrópu, þar sem raforkuframleiðsla hafi stærra kolefnisspor, en með þessum áfanga sé áætlað að orkusparnaður verði um 40%. Þá segir hann að í álverinu Straumsvík séu eingöngu framleiddar álstangir, en það risaskref hafi verið stigið með 70 milljarða fjárfestingu á árunum eftir hrun og í álveri Alcoa Fjarðaáls fyrir austan séu framleiddir vírar og málmblöndur og í samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir árið í fyrra komi fram að unnið sé að undirbúningi frekari fjárfestinga í nýrri steypulínu í steypuskála.

Fleiri fyrirtæki sem vinna að framþróun í áliðnaði

Pétur segir í greininni að framþróun í áliðnaði sé ekki einkamál álvera. Fjölmörg innlend fyrirtæki komi að því verkefni og séu þau jafnvel að selja vörur og þjónustu um allan heim. Hann segir mikla grósku í Álklasanum, sem komið var á fót fyrir tæpum áratug. Hann nefnir fyrirtæki á borð við DTE sem hafi lokið við að setja upp kerskálalausn hjá Emirates Global Aluminium, Gerosion sem vinni að hringrásarlausnum, betri nýtingu á hráefnum og verðmætasköpun úr iðnaðarúrgangi og Álvit sem vinni að þróun á umhverfisvænum kragasalla.

Dregið úr losun á hvert framleitt tonn af áli um 75% frá 1990

Þá kemur fram í grein Péturs að verkefnin framundan séu ærin. Þar standi upp úr að fara alla leið í loftslagsmálum og ná tökum á losun álvera. Ekki hafi enn tekist að þróa slíka tækni á stórum skala, en unnið sé að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum hjá öllum íslensku álverunum, sem lúti annarsvegar að föngun á koltvísýringi sem verði til í framleiðsluferlinu og hinsvegar að þróun kolefnislausra skauta sem komi í veg fyrir myndun koltvísýrings. Hann segir að ekki verði þó horft framhjá því, að nú þegar hafi mikill árangur náðst. Dregið hafi verið úr losun á hvert framleitt tonn hér á landi um 75% frá árinu 1990. Og það sé áfangi út af fyrir sig að staðsetja álver hér á landi, orkusækinn iðnað í landi endurnýjanlegrar orku, en á heimsvísu muni langmest um þá losun í álframleiðslu sem myndast vegna orkuvinnslu úr kolum og gasi til að knýja álframleiðsluna.

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 11. október 2023.

Sjá einnig