Framfaramál í áliðnaði voru rædd á Nýsköpunarmóti Álklasans og háskólanemar fengu hvatningarviðurken…
Framfaramál í áliðnaði voru rædd á Nýsköpunarmóti Álklasans og háskólanemar fengu hvatningarviðurkenningar, en hugmyndagátt að verkefnum er haldið úti af Álklasanum.

Ferðalaginu lýkur aldrei

Fjórða iðnbyltingin snýst um það hvernig hugur og hönd renna saman. Þannig komst Sigurður Magnús Garðarsson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, að orði á vel sóttu Nýsköpunarmóti Álklasans á þriðjudag. En hann galt varhug við því, að hlutfall tæknimenntaðra, það er á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði, væri einungis 16% hér á landi og mun lægra en almennt tíðkaðist í Evrópu. Til þess að ráða bót á því þyrfti samtal stjórnvalda, háskóla og atvinnulífs.

Verksmiðja í sýndarveruleika
Gísli Hjálmtýsson, sviðsforseti við Háskólann í Reykjavík, dró fram að sýndarveruleiki væri annað og meira en framtíðardraumur eða ný vídd í tölvuleikjum. Þannig hefðu íslenskir og norskir starfsmenn Marel hannað verksmiðju í Noregi í gegnum sýndarveruleika, þar sem þeir hittust inni í sama ímyndaða rýminu, áttu samtalið og sköpuðu umhverfi miðað að þeirra þörfum. Þá gæti fólk fengið starfsþjálfun í sýndarveruleika, ekki síst í störfum þar sem huga þyrfti að öryggismálum – þó að verksmiðjan væri ekki risin.

Óhætt er að segja að veröldin skreppi saman þegar úthaf hættir að verða fyrirstaða. En um leið og landamærin þurrkast út harðnar samkeppnin. Skyndilega er kaupmaðurinn á horninu kominn með alþjóðlega keppinauta. Og það er nýr veruleiki. Þetta er hinsvegar alvanalegt fyrir útflutningsfyrirtæki á borð við íslenska álframleiðendur, enda afurðirnar seldar á heimsmarkaði og engin leið að velta umframkostnaði út í verðið.

Stöðugt er því fjárfest í nýrri þekkingu og tækni og hagræðingarkrafan er mikil. Eftir stendur, að vandfundið er það fyrirtæki sem á ekki í alþjóðlegri samkeppni og því varðar miklu að stjórnvöld hafi jafnan í huga í sínum störfum að hamla ekki samkeppnishæfni fyrirtækja.

Snjallvæðing í áliðnaði
Snjallvæðing í áliðnaði var yfirskrift erindis Torfa Þórhallssonar, verkefnastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hann rifjaði upp að hann hefði heyrt talað um iðnbyltinguna með ákveðnum greini í menntaskóla. En nú væri öldin önnur. Sú fjórða að hefjast! Fyrsta iðnbyltingin fólst í vélvæðingunni, hinni margfrægu gufuvél. Önnur í fjöldaframleiðslu og raforku.

Segja má að hún hafi fyrst orðið að veruleika hér á landi með Búrfellsvirkjun og álverinu í Straumsvík fyrir hálfri öld. Þriðja byltingin fólst í sjálfvirkni, skynjurum og iðntölvum. Og fjórða iðnbyltingin snýst m.a. um sjálfstýrð nettengd framleiðslutæki og hlutanetið, sem tengir saman ólík kerfi, skynjara og tæki.

Það er ekki óvinnandi vegur fyrir íslensk fyrirtæki að stíga inn í fjórðu iðnbyltinguna, að mati Torfa. Auðvitað þarf að efla tæknimenntun og mikilvægt að hafa í huga í þeim efnum að snjalliðnaður krefst oft kunnáttu þvert á greinar. En það hefur sýnt sig að þarfir framleiðslufyrirtækja í ólíkum greinum eru oft svipaðar og mögulegt er að flytja þekkingu, tækni og lausnir milli þeirra. Íslendingar búa yfir sterkum hátækniiðnaði í fyrirtækjum á borð við Marel, Völku og Össur, leikjaiðnaður dafnar og þekkingin sem safnast hefur upp getur ýtt undir snjallvæðingu iðnaðar á Íslandi.

Hefjum samtalið
Samtal er hafið innan Álklasans um þær áskoranir og tækifæri sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni. En það þarf vitaskuld einnig að eiga sér stað á breiðari grundvelli með aðkomu stjórnvalda, háskóla og atvinnulífs. Vonandi er skýrslan „Ísland og fjórða iðnbyltingin“ sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið og kynnt var á málþingi fyrr í mánuðinum skref í þá átt.

Snjallvæðingin veitir sannarlega tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir. En ferðalaginu lýkur aldrei. Um leið og næsta hjalla er náð, þá tekur annar við. Svo vitnað sé í Torfa, þá græjum við ekki bara fjórðu iðnbyltinguna, pökkum saman og förum heim. Þetta er stöðugt ferli. Tækifærin eru mikil fyrir tækni- og framleiðslufyrirtæki. En það er nauðsynlegt fyrir litla þjóð að stilla saman strengi og hafa skýra sýn þegar við leggjum á næsta hjalla.


Höfundur er Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 21. mars 2019.

Sjá einnig