Pétur Blöndal segir það áskorun að halda starfsemi álvera gangandi á tímum heimsfaraldurs.
Pétur Blöndal segir það áskorun að halda starfsemi álvera gangandi á tímum heimsfaraldurs.

Treysta þarf samkeppnisstöðu íslensks áliðnaðar

Mikið sakna ég þess að geta ekki spjallað við vin minn Leif Eiríksson. Þegar hann lést fyrir rúmum áratug var hann 102 ára gamall og ég naut þess að ræða við hann liðna tíð.

Hann mundi vel árið viðburðaríka 1918. Það hófst með frostavetrinum mikla þegar hvítabirnir gengu á land. Katla gaus eldi og eimyrju. Spænska veikin herjaði á þjóðina og fyrir vikið voru fánar ekki dregnir að húni þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Í stað þess drúptu fánar á miðri stöng. Samt birti yfir svipnum á Leifi þegar hann rifjaði upp fullveldisdaginn 1. desember sem stóð „fagurlega eins og kyndill í minningunni af því að allt var svart í kring“.

Þrátt fyrir mótlætið voru Íslendingar bjartsýnir á framtíðina. Og óhætt að segja að okkur hafi farnast vel á þeirri vegferð sem var að hefjast.

Árið 1918 voru Íslendingar einungis 91 þúsund, en síðan hefur þjóðin fjórfaldast. Tæpur helmingur bjó enn í torfbæjum, en nú er húsakostur með því besta sem þekkist. Eins og Óli Björn Kárason rifjaði upp á fullveldisafmælinu: „Ein fátækasta þjóð Evrópu hefur brotist úr örbirgð til bjargálna, byggt upp eitt öflugasta heilbrigðiskerfi heims, virkjað iður jarðar og fallvötnin, komið á fót öflugu menntakerfi og ofið öryggisnet með almannatryggingum.“

Kennitalan jafngömul álverinu

Þetta tókst með því að skjóta fleiri stoðum undir verðmætasköpunina. Langt fram eftir síðustu öld fluttu Íslendingar nánast einvörðungu út sjávarafurðir, en nú eru iðnaðarvörur orðnar hærra hlutfall vöruútflutnings og munar þar mestu um útflutning áls. Bylting varð í iðnaði með tilkomu álversins í Straumsvík og byggingu Búrfellsvirkjunar. Stoðirnar urðu fleiri og burðugri með uppbyggingu orkusækins iðnaðar samhliða nýtingu endurnýjanlegrar orku. Það lagði  grunn að bættum lífsgæðum.

Álframleiðsla á Íslandi hefur staðið af sér hverja niðursveifluna af annarri, enda er kennitala álversins í Straumsvík jafngömul álverinu. Þegar bankahrunið reið yfir árið 2008 stóðu álverin þétt við bakið á stjórnvöldum og veittu mikilvæga innspýtingu í efnahagslífið, m.a. með 60 milljarða fjárfestingu í álverinu í Straumsvík sem er sú stærsta í íslensku efnahagslífi frá hruni.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, rifjaði það upp á hálfrar aldar afmæli álframleiðslu á Íslandi að frá því Isal hóf starfsemi hefur landsframleiðsla á mann aukist 50% meira á Íslandi en í öðrum löndum Evrópu. Á þeirri verðmætasköpun byggist sókn Íslendinga í velferð og lífsgæðum.

Álverin ekki á fullum afköstum

Nú á álframleiðsla um heim allan undir högg að sækja. Fyrst ber að nefna þá áskorun sem fylgir því að halda starfsemi álvera gangandi á tímum heimsfaraldurs. Höfuðáhersla er lögð á það í álverum hér á landi að tryggja öryggi starfsfólks og hefur verið gripið til róttækra ráðstafana til að endurskipuleggja starfsemina á þessum fordæmalausu tímum.

Ofan á það bætist hrun í eftirspurn áls. Munar mestu um að bílaframleiðendur á meginlandi Evrópu hafa nánast skrúfað fyrir framleiðsluna og mörg önnur fyrirtæki í áframvinnslu áls lokað. Heimsmarkaðsverð áls hefur fallið niður fyrir 1.500 dollara á tonnið og er því spáð að það fari niður fyrir 1.400 dollara. Talið er líklegt að álver loki í Evrópu og Ástralíu. Versnandi staða á mörkuðum er þegar farin að hafa áhrif á rekstur álvera hér landi.

Nauðsynleg forsenda fyrir því að orkusækinn iðnaður blómgist áfram á Íslandi er að rekstrarskilyrðin séu samkeppnishæf. Tvö af þremur álverum á Íslandi starfa ekki af fullum afköstum og hafa vísað til þess að verð orkunnar sé ósamkeppnishæft. Það er tap fyrir alla, áliðnaðinn, orkufyrirtækin og ekki síst þjóðarbúið sem verður af mikilvægum gjaldeyristekjum. Það var skref í rétta átt þegar iðnaðarráðherra ákvað að ráðast í sjálfstæða og óháða úttekt á samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar á Íslandi. Síðan sú ákvörðun var tekin hafa horfurnar versnað.

Íslendingum hefur farnast vel frá því „allt var svart í kring“, eins og Leifur orðaði. Við höfum kynnst mótlæti áður. Öll skilyrði eru fyrir hendi að halda áfram lífskjarasókninni, en til þess þarf öflugt atvinnulíf með samkeppnishæf rekstrarskilyrði sem skapar verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls

(Grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 8. apríl)


Sjá einnig