Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir einn höfuðkost álsins að það megi endurvinna aftur og …
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir einn höfuðkost álsins að það megi endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum gæðum.

Álpappír og drykkjardósir úr áli flokkaðar á Fiskideginum mikla

Mikið er lagt upp úr flokkun og endurvinnslu á Fiskideginum mikla. Í fyrra hófst söfnun drykkjardósum úr áli og í ár gefst gestum og gangandi kostur á að flokka álpappírinn sérstaklega. Pétur Blöndal er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda, sem tekur þátt í þessu átaksverkefni. Rætt var við hann í aukablaði Morgunblaðsins um Fiskidaginn mikla. 

„Það er sönn ánægja að eiga samstarf við Fiskidaginn mikla, enda hef ég heyrt margt um þennan stórskemmtilega viðburð frá vinum mínum, matgæðingunum Arnrúnu Magnúsdóttur og Friðriki V. Karlssyni,“ segir Pétur. „Þegar tækifæri bauðst til að ýta frekar undir flokkun og endurvinnslu áls, þá var ákveðið af stjórn Samáls að taka þátt í því verkefni. Mér finnst það frábært og alveg til fyrirmyndar að aðstandendur Fiskidagsins mikla stígi þetta skref og sýni með því ábyrgð í verki.“

75% áls enn í notkun

Ávinningurinn er mikill af því að flokka og endurvinna álið, enda býr það yfir þeim fágæta kosti að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. „Um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum frá upphafi er enn í notkun,“ segir Pétur.

„Enda er ál á meðal þeirra efna sem eru mest endurunnin. Það ýtir svo enn frekar undir endurvinnslu áls, að einungis þarf um 5% af orkunni sem fór í að frumframleiða álið til að endurnýta það. Í þeim orkusparnaði felst fjárhagslegur ávinningur, sem treystir rekstrargrundvöll endurvinnslufyrirtækja um allan heim. En orkusparnaðurinn við endurvinnsluna dregur einnig verulega úr kolefnislosun, þar sem mesta losunin við álframleiðslu á heimsvísu verður við orkuvinnsluna sjálfa.“

Þess vegna munar miklu fyrir loftslagið að framleiða ál með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og gert er á Íslandi. „Yfir helmingur alls áls í heiminum er framleiddur í Kína og þar er orkan að mestu sótt til kolaorkuvera, sem þýðir að losun á hvert framleitt tonn er tíföld á við það sem tíðkast hér á landi,“ segir Pétur.  

Söfnunarátak sprittkerta

Samál hefur komið að fleiri endurvinnsluverkefnum á síðustu árum. Nú síðast beitti Samál sér fyrir söfnun og endurvinnslu áls í sprittkertum. „Þegar haft er í huga að álframleiðsla á Íslandi er um 900 þúsund tonn, þá þykir eflaust sumum sem það muni lítið um eitt sprittkerti, en álið í einu sprittkerti vegur um 0,9 grömm eða einn milljónasta af því sem framleitt er á Íslandi,“ segir Pétur. „En þá er gott að muna, að margt smátt gerir eitt stórt. Í eina kókdós myndu duga 14 álbikarar af sprittkertum, um þúsund í léttustu reiðhjólin og um 700 í pönnukökupönnu frá Málmsteypunni Hellu.“

Söfnunarátak áls í sprittkertum hófst í byrjun desember undir yfirskriftinni „Gefum jólaljósum lengra líf“ og stóð það yfir fram í lok janúar. Eitt af fyrstu embættisverkum Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra var að hleypa því af stokkunum, en frumkvæðið kom frá Samáli og voru aðrir þátttakendur Alur álvinnsla, Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Hringrás, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samtök iðnaðarins og Sorpa. „Það var virkilega ánægjulegt hversu margir tóku vel í hugmyndina og voru allir af vilja gerðir að hrinda þessu átaksverkefni í framkvæmd,“ segir Pétur.

Mikilvægt að endurvinna

„Tilgangur átaksins var að vekja almenning til vitundar um mikilvægi endurvinnslu á því áli sem til fellur á heimilum. Skemmst er frá því að segja að viðtökur almennings voru frábærar. Söfnun áls í sprittkertum verður því haldið áfram og er það nú varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna.“

Nú gefst almenningi því kostur á að skila álinu á yfir 90 móttökustöðvar sem reknar eru um allt land af Sorpu, Endurvinnslunni, Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu og eins í grænar tunnur Íslenska gámafélagsins og í endurvinnslutunnur Gámaþjónustunnar. „Fljótlega bættust Grænir skátar í hópinn og bauðst fólki þá að skila sprittkertaálinu í um 120 dósagáma á höfuðborgarsvæðinu, sem gerði almenningi enn auðveldara fyrir,“ segir Pétur.

Álið á afmælisopnun Hönnunarmars

Til þess að efniviðurinn eignaðist framhaldslíf þótti kjörið að fá hönnuði til þess að bregða á leik. Hönnunarteymin voru Studio Portland, Olga Ósk Ellertsdóttir, Ingibjörg Hanna og Sigga Heimis. „Verkefnið var unnið í samstarfi við Málmsteypuna Hellu, sem hefur frá upphafi endurunnið ál í sinni framleiðslu, allt frá því stofnendur fyrirtækisins sóttu flugvélaflök á fjöll um miðja síðustu öld,“ segir Pétur. „Áhersla var lögð á nytjahluti fyrir íslenskan veruleika og innblástur sóttur í daglegt líf.“

Afraksturinn var sýndur á glæsilegri sýningu undir yfirskriftinni #Endurvinnumálið og var það liður í afmælisopnun Hönnunarmars í Hafnarhúsinu. Lykillinn að farsælu söfnunarátaki er að almenningur sé tilbúinn að stíga það skref.  „Það mátti glöggt finna á viðbrögðum almennings við sprittkertaátakinu að bylgjuhreyfingin er sterk í samfélaginu. Það er samtakamátturinn sem gildir og ég efast ekki um að okkur mun takast vel upp á Fiskideginum mikla,“ segir Pétur.

 

Sjá einnig