Álverin í miklum vanda

Íslenskur áliðnaður hefur sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafn krefjandi markaðsaðstæðum, að því er fram kemur í fréttaskýringu Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu í dag. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur eftirspurnin hrunið og við það safnast upp miklar birgðir.

Í fréttaskýringunni segir að áður en faraldurinn breiddist út til Evrópu hafi verið mikil umræða um rekstrarvanda álversins í Straumsvík. Til skoðunar hafi verið að loka álverinu vegna taprekstrar árum saman.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda (Samál), segi að ekki sé hægt að útiloka að dregið verði enn frekar úr álframleiðslu á Íslandi vegna erfiðra aðstæðna.

Erfið glíma við faraldurinn

Álverð hefur hrunið og hefur ekki verið lægra í fjögur ár, segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins og er vitnað í Pétur Blöndal:   

„Skilyrði á mörkuðum eru gríðarlega erfið. Eftirspurn hefur dregist verulega saman. Þar munar mest um lokanir og samdrátt í bílaframleiðslu, en þar virðist Evrópa ætla að verða verst úti. Um 36% alls áls sem notað er í Evrópu fer í samgönguiðnaðinn. Þá fer um 30% í byggingar og mannvirki. Það gefur augaleið að rík þörf er áfram fyrir ál í umbúðum, en í þær fara um 17% áls í Evrópu og eru þær m.a. notaðar til þess að einangra og lengja endingartíma matvæla, drykkja, lyfja og lækningavara. Fyrirtæki sem áframvinna ál hafa verið að loka í Evrópu og það hefur lamandi áhrif á eftirspurnina. Nánast allt það ál sem framleitt er á Íslandi er flutt á markað á meginlandi Evrópu og hefur þróunin þar því veruleg áhrif á framleiðsluna hér heima. Fyrirséð er að vandamál geti skapast í aðfangakeðju álvera, t.d. vegna lokunar fyrirtækja og takmarkana í flutningum. Mér er þó ekki kunnugt um að slík vandamál séu þegar komin upp,“ segir Pétur.

Meiri birgðir en eftir hrunið

Fram kemur í skýringunni að greiningarfyrirtækið CRU áætli að birgðir af áli muni nema um sex milljónum tonna, nema gripið verði til aðgerða til að draga úr framleiðslu. Til samanburðar hafi birgðirnar numið um fjórum milljónum tonna eftir fjármálakreppuna 2008.

„Þá var heimsframleiðslan að vísu minni, þannig að þetta er svipað hlutfall. Í grein Financial Times [um álmarkaðinn í vikunni] var rætt um lokun álvera í Evrópu og Eyjaálfu og var Ísland og Nýja-Sjáland nefnt í því samhengi,“ segir Pétur. Eftir miklar verðlækkanir að undanförnu megi ætla að stór hluti álvera í heiminum sé rekinn með tapi.

„Greinendur á markaði hafa spáð frekari lækkunum á álverði. Það hjálpar þó eitthvað til að aðföng á borð við súrál hafa einnig lækkað í verði. Þá hefur gengislækkun krónunnar haft jákvæð áhrif á innlendan kostnað álvera,“ segir Pétur.

Dregið úr framleiðslunni

Vert sé að hafa í huga að samkeppnisstaða íslensks áliðnaðar hafi verið slæm áður en kreppan hófst. 

„Á þessum fordæmalausu tímum er mikilvægt sem aldrei fyrr að standa vörð um samkeppnishæfni íslensks orkusækins iðnaðar. Það liggur fyrir að ekki er framleitt á fullum afköstum í Straumsvík, en Ísal hefur bent á að orkuverðið sé ekki samkeppnishæft. Ekki er heldur framleitt á fullum afköstum hjá Norðuráli, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er það vegna þess að ekki er í boði orka á samkeppnishæfu verði. Þetta hefur ekki einungis í för með sér tap fyrir álverin og orkufyrirtækin, heldur verður þjóðarbúið af miklum gjaldeyristekjum.

Það hlýtur að vera verkefnið að tryggja orkusæknum iðnaði á Íslandi sjálfbærar rekstrarforsendur til þess að hann haldi áfram að blómgast hér á landi. Sú staða sem komin er upp í viðskiptalífinu er fordæmalaus og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Íslenskur áliðnaður er þar auðvitað ekki undanskilinn og skapast hefur mikil óvissa á mörkuðum. Ég hef hins vegar þá trú að áliðnaður á Íslandi eigi framtíðina fyrir sér ef rekstrarforsendur eru sjálfbærar til framtíðar og samkeppnishæfnin treyst,“ segir Pétur.


Sjá einnig